146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að lýsa yfir ánægju minni með málflutning hv. þm. Jóns Steindórs Valdimarssonar og Pawels Bartoszeks, sem hefur nú flúið sessunaut sinni, en það er nú annar handleggur.

Ég vil vekja athygli þingheims og þjóðarinnar allrar á ágætri grein Guðmundar Guðmundssonar sem birtist í Kjarnanum í gær og fjallar um húsnæðismál. Greinin ber yfirskriftina „Ísland er eina landið í Evrópu þar sem heimilað er hömlulaust húsnæðisokur.“ Fram kemur að þessi fyrirsögn sé tekin orðrétt upp úr Þjóðviljanum frá 23. september 1955 þar sem fjallað var um húsnæðismarkaðinn.

Í grein sinni ber Guðmundur saman aðstæður á húsnæðismarkaði þá, þ.e. árið 1955, og nú, árið 2017. Niðurstaða Guðmundar er sú að aðstæður nú í dag séu ansi svipaðar aðstæðum þá. Ég held að hann hitti naglann á höfuðið, að einhverju leyti a.m.k., og það er sorglegt.

Það hlýtur að teljast heldur aumt hvað okkur hefur lítið miðað í rétta átt í þessum málum. Hér hefur verið rekin húseigendastefna, eða íbúðaeigandastefna, kannski í og með til að búa í haginn fyrir áhyggjulaust ævikvöld þannig að þarna væri á ferðinni einhvers konar fjárfesting launþeganna í steypuklumpum sem mætti svo seinna meir selja til að njóta ávaxtanna.

Gott og vel. Það er ekkert að því að fólk fjárfesti í steypu ef því sýnist svo. En ég er þeirrar skoðunar að ríkið eigi að gera meira til að útvega fólki þak yfir höfuðið. Til dæmis með því að stuðla að hagstæðum aðstæðum á leigumarkaði, ekki síst með ákveðnum hömlum á hækkun leiguverðs líkt og þekkist sums staðar erlendis. Auk þess þætti mér eðlilegt og sjálfsagt að ríkið ræki eigin leigufélög (Forseti hringir.) þar sem þeir sem standa höllum fæti gætu fengið inni.