146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í sérstökum umræðum um skil á skýrslu um eignir Íslendinga í skattaskjólum fullvissaði forsætisráðherra okkur þingmenn og Íslendinga almennt héðan úr ræðustól þingsins, svo ég vitni beint í orð ráðherra, með leyfi forseta:

„Fjölmiðlum var svarað að skýrslan væri að verða tilbúin.“

Mér þótti þetta vera athyglisverð fullyrðing og velti því fyrir mér hvenær fjölmiðlum hefði verið svarað að skýrslan væri að verða tilbúin. Var það kannski eftir að skýrslan var tilbúin, spurði ég sjálfan mig. Til þess að komast til botns í því sendi ég fyrirspurn á fjármálaráðuneytið og spurði hvenær fjölmiðlar hefðu verið látnir vita, hvenær fjölmiðlar báðu um upplýsingar um skýrsluna og svo hverju var svarað. Svarið barst mér í gær. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Samskipti við fjölmiðla um framvindu skýrslunnar fram að birtingu hennar voru öll í kjölfar fyrirspurna frá þeim.“ — Þ.e. frá fjölmiðlum.

Samkvæmt svari ráðuneytisins bárust átta skriflegar fyrirspurnir frá fimm fjölmiðlum á tímabilinu 27. október 2016 til og með 10. janúar 2017. Fyrirspurninni frá 27. október var svarað af hálfu ráðuneytisins 2. nóvember, eftir kosningar, með vísan til þeirrar ætlunar ráðherra að skýrslan yrði kynnt opinberlega þegar nýtt þing kæmi saman, sem var ekki gert.

Hér kemur skýrt fram að frumkvæðisreglunni samkvæmt siðareglum ráðherra var ekki sinnt. Hér kemur fram að fjölmiðlum var ekki svarað fyrir kosningar um mál sem tvímælalaust varðaði ástæður þess að við vorum að kjósa í október, um mál sem forsætisráðherra ákvað sjálfur að setja ekki í kosningasamhengi, um mál sem tengist forsætisráðherra persónulega. Það ber enginn annar ábyrgð á því að skýrslunni var stungið undir stól en forsætisráðherra. Það ber enginn annar ábyrgð á því að ljúga að þjóðinni en forsætisráðherra. Og það axlar enginn neina ábyrgð. Af hverju ekki?

Traust á Alþingi (Forseti hringir.) heldur áfram að vera í draslflokki ef við látum svona ábyrgðarleysi viðgangast.