146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

lífeyrissjóðir.

[15:44]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Okkur Íslendingum hefur tekist að byggja upp lífeyriskerfi sem er öfundsvert hjá flestum þjóðum. Styrkleiki þess er styrkleiki íslensks launafólks og styrkleiki íslensks efnahagslífs. Ég get því sagt að lífeyrissjóðirnir séu fjöreggið okkar, sameiginlegt fjöregg.

Heildareignir eru um 3.500 milljarðar kr. Á næstu 12–15 árum munu eignir sjóðanna að líkindum tvöfaldast og nálgast 7.000 milljarða. Það er varla til sú hugmynd hér að verkefnum í íslensku atvinnulífi eða uppbyggingu innviða öðruvísi en lífeyrissjóðirnir séu nefndir þar á nafn og talið að þangað sé fjármagnið helst að sækja.

Það er ýmislegt sem þarf að hyggja að. Í viðtali við Morgunblaðið fyrir nokkru sagði Bjarni Benediktsson, hæstv. forsætisráðherra, að hann hefði miklar áhyggjur af því að lífeyrissjóðirnir væru orðnir fyrirferðarmiklir í íslensku atvinnulífi. Hann sagði orðrétt, með leyfi forseta:

„Þeir eru komnir með milli 40–50% af öllum skráðum hlutabréfum. Eru orðnir mjög fyrirferðarmiklir víða annars staðar, bæði í óskráðum félögum og alls kyns sjóðum. Þeir eru í raun og veru leiðandi og áberandi fjárfestar víðast þar sem eitthvað er að gerast í íslensku atvinnulífi í dag.“

Með þessum orðum lýsti hæstv. forsætisráðherra nokkrum áhyggjum og ég hygg að þær séu réttmætar. Lífeyrissjóðirnir eru komnir með ráðandi stöðu í íslensku atvinnulífi. Sú hætta er vissulega fyrir hendi að við séum að horfa upp á það að völdin séu að safnast á fárra hendur þar sem haldið verði um valdataumana af fámennum hópi manna, allt frá bönkum til matvöruverslana, frá fjölmiðlum til flugfélaga, fjarskipta til sjávarútvegs o.s.frv.

Mikill meiri hluti Íslendinga er hins vegar áhrifalaus eða áhrifalítill þegar kemur að því hvernig stórum hluta launa þeirra er ráðstafað og hvernig búið er í haginn til eftirlauna. Fæstir geta valið sér lífeyrissjóð nema þegar kemur að séreignarsparnaði og það er undantekning ef sjóðfélagar eiga þess kost að hafa áhrif á það hverjir sitja í stjórn viðkomandi lífeyrissjóðs.

Pétur heitinn Blöndal, þingmaður okkar Sjálfstæðismanna, var baráttumaður fyrir því sem hann kallaði lýðræðisvæðingu lífeyrissjóðanna og lagði a.m.k. þrisvar sinnum fram frumvarp um það að lífeyris- eða sjóðfélagar myndu með beinum hætti kjósa stjórnir lífeyrissjóðanna. Í byrjun þessa mánaðar birti Fréttablaðið frétt þar sem vitnað var til skoðanakönnunar sem leiddi í ljós að 97% landsmanna vilja hafa frelsi til að velja sér lífeyrissjóð. Litlu færri, eða 95%, vildu fá að kjósa sjálfir hverjir sætu í stjórnum þessara lífeyrissjóða.

Sá er hér stendur skrifaði í framhaldinu grein í Morgunblaðið og var að velta þessum atriðum upp. Það varð til þess að forráðamenn Samtaka atvinnulífsins sáu ástæðu til þess að svara þeim sem hér stendur, sem var ágætt. Það kom ekki á óvart að þeir tækju ekki undir þau sjónarmið að hugsanlegt væri að lofa sjóðfélögum sjálfum að velja stjórn eða hafa frelsi til að velja lífeyrissjóði, en mér þótti hins vegar óþægilegt að lesa greinina og verða vitni að þeim þjósti sem forráðamenn Samtaka atvinnulífsins sýndu, voru ekki tilbúnir.

Ég er því með nokkrar spurningar til hæstv. fjármálaráðherra:

Hverja telur hann að séu kostir og hverjir gallar þess að lögfesta frelsi launafólks til að velja sér lífeyrissjóð, þ.e. valfrelsi og samkeppni milli lífeyrissjóða?

Er æskilegt að auka samkeppni milli lífeyrissjóða?

Með hvaða hætti er hægt að auka áhrif sjóðfélaga á stefnu og fjárfestingar lífeyrissjóðanna? (Forseti hringir.) Ef ekki með því að leyfa þeim að kjósa með beinum (Forseti hringir.) hætti í stjórnir, hvernig þá? Er ekki æskilegt að sjóðfélagar (Forseti hringir.) hafi meiri áhrif en þeir hafa?