146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

lífeyrissjóðir.

[15:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Ég byrja á því að þakka málshefjanda, hv. þm. Óla Birni Kárasyni, fyrir að vekja máls á lífeyrissjóðum og mikilvægum þáttum í starfsemi þeirra.

Fyrst er það spurningin um hvort skynsamlegt sé að lögleiða frelsi launafólks til að velja sér lífeyrissjóð. Almennt talað er ég fylgjandi frelsi og ég tel að það hafi gildi í sjálfu sér að hafa frelsi til að velja. Það gefur fólki tækifæri til að sækjast eftir því að vera í sjóðum sem eru því að skapi af einhverjum ástæðum, t.d. vegna fjárfestingarstefnu, réttinda eða góðrar þjónustu.

Eftir samræmingu lífeyrisréttinda á vinnumarkaði ættu þeir sem nú starfa hjá hinu opinbera, sem ekki hafa val um lífeyrissjóð, að taka því frelsi fagnandi. Gæta yrði að því að lífeyrissjóðir stæðu öllum opnir þannig að ekki yrði um andval að ræða þannig að ekki yrði hægt að hafna þeim sem sjóðfélögum sem sinna áhættumiklum störfum.

Örorkubyrði sjóðanna myndi sennilega jafnast nokkuð við það, miðað við það sem nú er, ef launþegar hefðu val um það í hvaða sjóð þeir greiða. Tryggingafræðileg staða sjóðanna þyrfti að verða svipuð, því að annars myndu sjóðfélagar flykkjast í sjóði sem betur standa.

Reyndar má hugsa sér það hvort eðlilegt sé að örorkubyrði sé dreift milli lífeyrissjóða með sérstökum samtryggingarsjóðum þannig að ekki skapist mismunur á ellilífeyri vegna mikillar örorkubyrði.

Jafnframt er það mikilvægt að reglur lífeyrissjóða mismuni félögum ekki gagnvart almannatryggingakerfinu.

Ef telja ætti upp einhverja ókosti við það að hafa frelsi mætti nefna að einstaklingar sem skipta oft um sjóð eiga að lokum réttindi í mörgum sjóðum sem leitt getur til óhagræðis og aukins kostnaðar. Auk þess má velta því fyrir sér hvort hinn mikilvægi stuðningur sem lífeyrissjóðir hafa haft frá aðilum vinnumarkaðarins gæti minnkað við breytt kerfi.

En svo ég svari hv. þingmanni er meginskoðun mín sú að samkeppni sé almennt góð og líkleg til að auka þjónustu og lækka kostnað.

Hv. þingmaður spyr einnig með hvaða hætti hægt sé að auka áhrif sjóðfélaga á stefnu og fjárfestingar lífeyrissjóða, t.d. þegar kemur að skipun stjórnar. Það er erfitt að fullyrða um hvaða eitt fyrirkomulag er betra en annað. Í dag eru nú þegar starfandi sjóðir bæði með sjóðfélagalýðræði og fulltrúalýðræði og kannski enn einir sjóðir sem skipað er beint í af atvinnurekendum og verkalýðsfélögum. Allir kostirnir hafa bæði kosti og galla. Gallinn við sjóðfélagalýðræði er að það er annaðhvort í gegnum netkosningu eða mætingu á ársfundi þar sem tiltölulega fáir koma að ákvörðunum um stjórn og breytingar á samþykktum. Ég get nefnt lífeyrissjóðinn Lífsverk sem hefur kosningu á ársfundi. Þar var reynt að bregðast við þessu með því að bjóða upp á netkosningu en þá kusu ekki miklu fleiri en venjulega en aðsókn á ársfund minnkaði hins vegar samhliða. Þá má líka geta þess að þeim sjóðum þar sem sjóðfélagar kusu stjórn beint vegnaði ekki betur en öðrum í hruninu, hvort sem þar var beint samband á milli eða ekki.

Starfsgreinasjóðir eru nú með fulltrúalýðræði, að minnsta kosti þegar kemur að vali á fulltrúum launþega. Þar hafa sjóðfélagar bein áhrif á stjórnir stéttarfélaga sinna og þannig á stjórn lífeyrissjóða.

Að lokum má nefna að aðkoma atvinnurekenda að stjórnum lífeyrissjóða hefur verið gagnrýnd. Rökin fyrir aðkomu þeirra hafa alla tíð verið þau að atvinnurekendur hafi hag af því að sjóðfélagarnir njóti góðra réttinda. Aðkoma atvinnurekenda hefur verið mikilsverður þáttur í sátt um lífeyriskerfið.

Ég set aftur á móti spurningarmerki við það að sjóðfélagar móti fjárfestingastefnuna nema þá innan þröngra marka.

Oft hafa komið upp hugmyndir um að lífeyrissjóðir niðurgreiði þjóðþrifamál af ýmsu tagi. Þá er verið að færa fjármuni frá sjóðfélögum, fjármuni sem sjóðunum ber að ávaxta með sem allra bestum hætti, þá eru þeir færðir til óskyldra verkefna.

Ábyrgð lífeyrissjóðanna er fyrst og fremst sú að greiða sem bestan lífeyri. Til þess þurfa þeir að ávaxta sjóði sína vel. Miklu skiptir að áhættu sé dreift samhliða góðri ávöxtun. Lykilatriði þegar stór hluti launa hvers launamanns fer í skyldusparnað. Það er eðlilegt að fólk hafi sem mest val um hvernig þeim fjármunum er ráðstafað og að lýðræðislegt eftirlit eða annað eftirlit sé með sjóðunum. Samkeppni undir eftirliti er til þess fallin að bæta þjónustu, lækka kostnað eða hvort tveggja.