146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

lífeyrissjóðir.

[16:04]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Herra forseti. Þetta er þörf umræða. Það er nefnilega ástæða til að staldra aðeins við og velta því upp hvort þeir sem fara með þessi miklu völd sem fylgja stjórn lífeyrissjóða hafi til þess nægilegt lýðræðislegt umboð frá sjóðfélögum sínum, einfaldlega vegna þess að stjórnendur þessara sjóða eru að sýsla með annarra manna fé, þetta er annarra manna fé, og hafa í því sambandi ekki öðlast þann sess á grundvelli eigin áhættutöku eða frumkvæðis. Það er ástæða til að spyrja hvaða áhrif það hefur á samkeppni þegar lífeyrissjóðir eiga stóran hluta af fyrirtækjum landsins á hlutabréfamarkaði, allt að 50%, og eiga enn fremur í vaxandi mæli eignarhluti í fleiri en einu fyrirtæki á sama markaði. Það væri áhugavert að heyra í seinni ræðu hæstv. fjármálaráðherra um sýn hans á þessi samkeppnisatriði.

Í þessari umræðu hefur verið nefnt tvennt sem kemur til greina til að stemma stigu við óæskilegri og óheilbrigðri samþjöppun á markaði. Það er annars vegar að setja gólf á fjárfestingar lífeyrissjóða erlendis og hins vegar að setja takmörkun á atkvæðisrétt lífeyrissjóða í félögum, t.d. með reglum um A- og B-hluta flokka í hlutafélögum. Hæstv. forsætisráðherra hefur nýlega vakið máls á þessu og hefur boðað að úttekt fari fram á þessum atriðum og því ber að fagna.

Að lokum, herra forseti, skiptir auðvitað máli að lífeyrissjóðir geti fjárfest og ávaxtað skynsamlega þennan ævisparnað landsmanna. Á sama tíma er mikil þörf fyrir innviðafjárfestingar á Íslandi. Því er örugglega alveg rétt að stjórnvöld skapi frekari grundvöll til þess að lífeyrissjóðirnir geti beint fjárfestingum sínum í þennan farveg í meira mæli.