146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

lífeyrissjóðir.

[16:09]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Það er rétt sem hefur komið fram að lífeyrissjóðirnir eru fyrirferðarmiklir í íslensku efnahagslífi. Það eru ýmsar ástæður fyrir því. Þeir eru stórir. Það er mikið af peningum í sjóðunum, svo hafa þeir bara verið lokaðir inni í hagkerfinu lengst af og lítið annað gert við peninginn sinn, sem þeim ber að ávaxta fyrir hönd launafólks.

Mér finnst umræðan hérna hafa það yfirbragð að lífeyrissjóðirnir séu eitthvert sérstakt vandamál, það sé vandi á höndum. Mér finnst það ekki vera. Mér finnst enginn sérstakur vandi á höndum þótt lífeyrissjóðirnir séu sterkir og eigi mikið af peningum. Hér hefur verið nefnt að hugsanlega takmarka með einhverjum hætti áhrif þeirra í fjárfestingum sem þeir ráðast í, draga úr atkvæðavægi þeirra, setja þeim ákveðið gólf, stýra þeim með einhverjum hætti inn í fjárfestingar. Ég er andsnúinn því. Látum lífeyrissjóðina um það að ávaxta fé sitt fyrir launþegana sem eiga sjóðina.

Ef við viljum auka vægi launþega í lífeyrissjóðunum skulum við byrja á því að láta þá sjá um sjóðina eina en ekki atvinnurekendur með þeim. Það hefur mér fundist óeðlilegt alla tíð. Byrjum á því að auka vægi lífeyrissjóðanna með því að fela launþegunum, eigendum sjóðanna sjálfra, að stýra þeim. Auðvitað ráða eigendur sjóðanna, þ.e. launagreiðendur, þeir kjósa í sjóðinn í gegnum stéttarfélögin. Það eru stéttarfélögin sem bera uppi lífeyrissjóðina. Það eru þau sem mynda lífeyrissjóðina. Í gegnum stéttarfélögin ráða launþegar hvernig málum er háttað. Þar eiga þeir að geta verið virkari og beitt áhrifum sínum enn frekar en áður.

Það að takmarka lífeyrissjóðina, takmarka fjárfestingar þeirra, takmarka vægi þeirra með einhverjum hætti eða reyna að ná í þá fjármuni sem þar eru inni til einhverra annars konar fjárfestinga en þeir hafa verið í í dag er (Forseti hringir.) upphafið að niðurbroti lífeyrissjóðanna (Forseti hringir.) og þá um leið stéttarfélaganna í landinu. Ég er algjörlega andsnúinn því.