146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

306. mál
[16:24]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, en um er að ræða tillögu að bráðabirgðaákvæði við lögin um sérstakt framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Frumvarpið er unnið í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og er efni þess í samræmi við samþykkt stjórnar sambandsins frá 27. júní 2014. Innanríkisráðherra lagði fram sambærileg frumvörp á vor- og haustþingi 2015 sem ekki hlutu afgreiðslu. Þá var ákvæði þessa efnis upphaflega í frumvarpi því er varð að lögum nr. 135/2014, en var þá fellt brott að tillögu umhverfis- og samgöngunefndar þar sem nefndin taldi það þarfnast nánari skoðunar í ljósi athugasemda sem henni höfðu borist og þess skamma fyrirvara sem hún hafði til meðferðar málsins.

Tilgangur frumvarpsins er að vega á móti þeim áhrifum sem lög nr. 40/2014, um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar, hafa haft á útsvarstekjur sveitarfélaganna, en eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpi þeirra laga hafa þau leitt til tímabundinnar lækkunar á útsvarstekjum sveitarfélaga vegna meiri sparnaðar í formi séreignar og skattfrelsis iðgjalda. Er lagt til að þetta sé gert með úthlutun sérstaks framlags úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem samsvarar þeim auknu tekjum sem fallið hafa til sjóðsins frá miðju ári 2014 og út árið 2016 vegna álagningar sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 155/2010.

Samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga er hluti tekna Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga framlag úr ríkissjóði sem nemur tilteknu hlutfalli af innheimtum skatttekjum ríkissjóðs, en hlutfall þetta nemur nú rúmu 2,1%. Auknar tekjur ríkissjóðs vegna álagningar sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 155/2010 hafa því skilað auknum tekjum í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem nemur þessu hlutfalli. Frá miðju ári 2014 og út árið 2016 námu þessar auknu tekjur jöfnunarsjóðs tæpum 1,3 milljörðum kr.

Að óbreyttu ætti jöfnunarsjóður að ráðstafa þessum auknu tekjum til sveitarfélaganna eftir almennum reglum tekjustofnalaganna um úthlutanir úr sjóðnum. Frumvarpið felur hins vegar í sér að þessum tekjum verði skipt milli sveitarfélaganna í réttu hlutfalli við hlutdeild þeirra í álögðu heildarútsvari á landsvísu á tímabilinu og þar með í réttu hlutfalli við þau áhrif sem lög nr. 40/2014 hafa haft á útsvarstekjur sveitarfélaganna.

Rétt er að taka sérstaklega fram að frumvarpið hefur ekki áhrif á heildarframlög jöfnunarsjóðs til sveitarfélaganna, heldur eingöngu skiptingu þessa tekjuauka sjóðsins milli sveitarfélaganna.

Virðulegur forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg til að því verði, að lokinni þessari umræðu, vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.