146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

306. mál
[16:29]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ljóst að við stöndum frammi fyrir ákveðnum vanda, sem hv. þm. Eygló Harðardóttir gerir að umtalsefni, í tengslum við þetta. Ég hef engar athugasemdir við það að í störfum hefndarinnar verði unnið með þetta mál og reynt að nálgast þessi sjónarmið ef þingið telur heppilegt að tengja þetta saman. Það verður þá að koma fram í málsmeðferð í þinginu.

Varðandi þá vinnu sem er í gangi í ráðuneytinu, og reyndar á vettvangi fleiri ráðuneyta, hefur verið blásið til formlegs samstarfs á milli ráðuneyta einmitt til að vinna á þessum húsnæðisvanda, m.a. varðandi það að lækka byggingarkostnað enn frekar en gert hefur verið. Stigin voru ákveðin skref á síðasta kjörtímabili í þessa átt en betur má ef duga skal. Einnig er talað um hvernig auka megi lóðaframboð og vinna þannig gegn þeim alvarlega vanda sem við stöndum frammi fyrir, en það er ljóst að skortur á lóðum, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu, er kannski meginrót vandans.

Þessi vinna er í gangi og af hálfu velferðarráðherra hefur verið settur af stað ákveðinn samstarfshópur. Ég vænti þess að fljótlega komi niðurstöður úr þeirri vinnu.