146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

306. mál
[16:34]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að byrja á að þakka hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fyrir framsöguna og spyrja hann út í atriði sem við hv. þingmenn landsbyggðarkjördæma höfum fengið að heyra og hefur verið talað við okkur um vegna framlagningar þessa máls.

Það eru uppi áhyggjuraddir í mörgum af hinum dreifðu byggðum um að ef þetta mál verði að lögum fái sveitarfélögin sem mestar tekjurnar hafa bróðurpartinn af fjármagninu úr jöfnunarsjóði, en hlutverk jöfnunarsjóðs er að jafna mismunandi útgjaldaþörf á skatttekjum sveitarfélaganna með framlögum úr sjóðnum. Ég fletti upp frá framlagningu málsins á fyrri þingum og þar kemur fram, svo að maður taki sveitarfélögin í því kjördæmi sem ég starfa, að Borgarbyggð, Dalabyggð og Skagafjörður ályktuðu öll á móti þessu frumvarpi og töldu að þau myndu bera skarðan hlut frá borði ef frumvarpið yrði að lögum.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, af því ég hef ekki haft nægan tíma til að setja mig inn í þetta mál, hvort gerð hafi verið breyting á málinu frá því að það var lagt fram áður sem komi til móts við áhyggjuraddir þeirra sveitarfélaga sem ég vitnaði til.