146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

306. mál
[16:36]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Málið er óbreytt frá því sem það var þegar það var lagt fram hér áður og ekki náðist sátt um. Það er svo sem vitað um hvað ágreiningurinn snýst í þessu. Þetta frumvarp er á sínum tíma búið til sem ákveðin málamiðlun til ráðuneytis, er sjö manna ráðgjafarnefnd sem hefur farið yfir þessi mál. Það er alveg rétt að verði farið að úthlutun samkvæmt frumvarpinu á þessum viðbótartekjum eingöngu — og það er mjög mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því að þær eru til komnar vegna ákvarðana stjórnvalda sem höfðu síðan áhrif á það að sveitarfélög misstu ákveðinn hluta af útsvarstekjum sínum. Það hefur verið litið á það sem ákveðið sanngirnismál að þeir sem töpuðu tekjunum fái þær til baka eins og hægt er samkvæmt því sem segir í frumvarpinu. Það er svo sjónarmið annarra sveitarfélaga að fara eigi með þetta fé með sama hætti og aðrar tekjur jöfnunarsjóðs en það er mikilvægt, eins og kom fram í framsögu minni, að hafa í huga að þetta var unnið í nánu samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og er í raun samþykkt af stjórn félagsins samkvæmt þeirri dagsetningu sem ég fór yfir áðan.

Þingið verður síðan að glíma við þetta. Það væri best að reyna að leysa þetta mál í einhvers konar sátt. Það er mjög mikilvægt að ekki kastist í kekki á milli sveitarfélaga vegna þessa máls. Ég tel að það eigi að láta reyna á það í meðförum þingsins og fyrir nefndinni.