146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

306. mál
[16:47]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þau sjónarmið sem hv. þm. Bjarni Jónsson reifaði hér eru ekki ný eða ókunn í umræðunni. Þau komu upp af og til á síðasta kjörtímabili í tilefni af þessu máli sem þá var um nokkurt skeið til meðferðar í umhverfis- og samgöngunefnd. Ég efast ekki um að núverandi umhverfis- og samgöngunefnd muni fara vandlega yfir þessi sjónarmið. En það er hins vegar eitt atriði sem ég vildi vekja athygli á í tilefni af ræðu hv. þingmanns. Það er að þetta viðbótarfjármagn til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hefði aldrei komið til nema vegna þess að ætlunin var að bæta sveitarfélögum tekjutap vegna áhrifa bankaskattsins. Það var forsenda fyrir því að um þá aukningu til jöfnunarsjóðsins var að ræða. Hugmyndin var þá sú að bæta þeim sveitarfélögum tjónið, ef hægt er að orða það svo, sem urðu fyrir tjóni, en ekki einhverjum öðrum sveitarfélögum.