146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

306. mál
[16:48]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kannast líka við þau sjónarmið sem hér voru færð fram í andsvari. Ég vil minna á að um jöfnunarsjóðinn gildir regluverk sem farið er eftir. Peningum sem þangað fara er deilt út eftir því regluverki. Hér er líka um að ræða mörg ár aftur í tímann. Það orkar verulega tvímælis að fara að hlutast til um ráðstöfun slíkra fjármuna með lagasetningu svo langt aftur í tímann. Það væri annað ef verið væri að horfa sérstaklega í það hvernig hlutirnir myndu verða frá og með deginum í dag eða frá samþykkt laganna.

Það eru talsverðir annmarkar á því að seilast mörg ár aftur í tímann, eins og réttilega hefur verið bent á í því lögfræðiáliti sem ég vitnaði til, og það er eins víst að mörg af þessum sveitarfélögum, sem telja á sér brotið ef þessi lög ná fram að ganga, muni sækja rétt sinn og jafnvel fá hann.

Ég undirstrika að mér þykir miður að ekki hafi verið stigin frekari skref til þess að ná sátt í þessu máli því að það liggur líka fyrir að stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga er algerlega klofin í þessu máli. Ég tel líklegra að það mál sem lagt er fram nánast óbreytt, sem hér hefur komið fram að ósátt var um á sínum tíma, hafi frekar súrnað með tímanum og að ólíklegt sé að sátt verði um þetta sama plagg, svo því sé haldið til haga.