146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

306. mál
[17:00]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni ágæta yfirferð yfir málið. Hv. þm. Teitur Björn Einarsson kemur vel inn á marga þætti þessa máls og hvað það er á margan hátt flókið. Við hv. þingmaður erum ekki alltaf sammála niðurstöðunni en ég hef ekki fundið annað, af því að við sitjum saman í hv. umhverfis- og samgöngunefnd, en að við deilum áhuga á því að vinna vel að málum. Ég tek undir orð hv. þingmanns hvað það varðar að nefndin þarf að vinna vel að þessu máli og kalla til sín gesti og skoða málið, því að það er á margan hátt flókið.

Ég get eiginlega ekki staðist þá freistingu þar sem ég hlustaði á hv. þingmann lýsa yfir þessu flókna sambandi ríkis og sveitarfélaga í tekjum gegnum jöfnunarsjóð og fleira slíkt og þessu fyrirkomulagi öllu, sem ég held að hv. þingmaður þekki töluvert betur en ég að getur verið mjög flókið og viðkvæmt, að spyrja hv. þingmann út í afstöðu hans til frumvarps til laga sem þrír hv. samþingmenn hans í Sjálfstæðisflokknum hafa lagt fram um að breyta lögum um tekjustofna sveitarfélaga og afnema lágmarksútsvar. Styður hv. þingmaður það mál og hefur hann þá áhyggjur af því hvernig það gæti komið inn á jöfnunarsjóðinn? Mér þótti hv. þingmaður fara vel yfir það hvert hlutverk jöfnunarsjóðsins er, gera sér vel grein fyrir viðkvæmu fyrirkomulagi hans og þess vegna langaði mig að þýfga hann um afstöðu til þeirra breytinga á frumvarpi sem ég kom inn á.