146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

306. mál
[17:02]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það væri hægt að þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar en ég verð þó að geta þess áður en ég reyni að svara spurningum hans að andsvar hv. þingmanns snerist um allt annað mál og það að spyrja um annað mál en er til umfjöllunar er ekki í samræmi við þingsköp Alþingis. Ég vildi að það kæmi fram.

Ég get byrjað á því að taka undir það sem hv. þingmaður segir í andsvarinu, að það er flókið regluverk í Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Það er tiltölulega flókið. Að baki því regluverki eru samningar, samkomulag sem menn hafa náð um ágreining um það hvernig eigi að jafna tekjur milli sveitarfélaga eftir mismunandi aðstöðu þeirra til þess að öll sveitarfélög landsins geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Það er meginatriðið. Sveitarfélög hafa, eins og hv. þingmaður gerir sér væntanlega grein fyrir, og menn vísa til stjórnarskrárinnar í því sambandi, töluvert sjálfstæði í því hvernig þau kjósa að ráðstafa þeim tekjustofnum sem þeim eru settir samkvæmt lögum. Samspilið þarna á milli er flókið. Þess vegna er þetta mál sem er til umfjöllunar viðkvæmt, af því að það glittir í að þarna eru menn að beygja út af þeim meginreglum sem hafa verið settar í lögum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.