146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

306. mál
[17:13]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég vil þó halda því til haga að eins og kom fram í máli ráðherra þegar hann kynnti frumvarp hæstv. ráðherra er þetta nánast sama frumvarp og hefur áður verið lagt fram. Það er þó alla vega komin ein ný breyta og hefur sérstaklega verið bent á, m.a. í lögfræðiálitum sem gagnrýnt hafa frumvarpið og þessa leið, að með hverju árinu sem líður minnka líkurnar á því að þær stoðir sem mögulega voru undir því í upphafi standist í dag. Þarna er um að ræða enn þá meiri afturvirkni og farið er fleiri ár aftur í tímann. Hvert árið bætist við eftir því sem frumvarpið er lagt oftar fram og það verður æ vafasamara með hverju árinu sem líður í þeim efnum.