146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

umferðarlög.

307. mál
[17:17]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á umferðarlögum. Breytingarnar fela í sér að heimilt verður fyrir ráðherra og sveitarstjórnir að setja reglur um notkun stöðureita og innheimta gjald fyrir hana og tengda þjónustu.

Í 1. gr. frumvarpsins eru lagðar til eftirfarandi breytingar á 2. mgr. 83. gr. umferðarlaga.

Í fyrsta lagi er lagt til að sveitarstjórnum verði heimilt að setja reglur um notkun stöðureita og gjaldtöku fyrir hana á landi í umráðum þeirra, þ.m.t. á þjóðlendum innan marka sveitarfélagsins. Gert er ráð fyrir að lögreglustjóri samþykki reglur um notkun stöðureita á landsvæðum í umráðum sveitarstjórnar, líkt og í núgildandi lögum, en ráðherra, sem fer með málefni þjóðlendna, staðfesti reglur er að þeim snúa.

Í öðru lagi er lagt til að sveitarstjórn verði heimilt að innheimta gjöld fyrir afnot af stöðureitum á landi í umráðum hennar og á þjóðlendum innan marka sveitarfélagsins. Sveitarstjórnum er nauðsynlegt að afla samþykkis ráðherra er fer með málefni þjóðlendna fyrir gjaldtöku innan þeirra.

Í þriðja lagi felur frumvarpið í sér heimild handa ráðherra til að setja reglugerð um notkun stöðureita og gjaldtöku fyrir hana á landi í umráðum ríkisins. Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að ráðherra afli samþykkis þess ráðherra sem fer með málefni ríkisjarða áður en gjaldtaka hefst.

Samkvæmt frumvarpinu eru náttúruverndarsvæði og þjóðlendur undanþegnar gjaldtökuheimild ráðherra í umferðarlögum. Verði hins vegar farið í gjaldtöku á náttúruverndarsvæðum er gert ráð fyrir að hún muni byggja á lögum um náttúruvernd nr. 60/2013, en gjaldtaka á þjóðlendum verður á vegum sveitarstjórna samkvæmt þessu frumvarpi sem áður sagði.

Í fjórða lagi er lagt til að innheimta gjalds á stöðureitum á landi í umráðum ríkisins verði í höndum ráðherra eða annarra sem hann felur innheimtuna með samningi.

Í fimmta lagi er lagt til í frumvarpinu að fjárhæð gjaldsins, sem innheimt verður af sveitarstjórnum og ráðherra, miðist við að standa straum af byggingarkostnaði, viðhaldi og rekstri stöðureita, þ.m.t. launum varða og kostnaði við uppbyggingu, viðhald og rekstur þjónustu sem veitt er í tengslum við notkun stöðureitar, svo sem salernisaðstöðu og gerð og viðhaldi göngustíga og tenginga við önnur samgöngumannvirki. Gert er ráð fyrir að gjaldskrá verði birt notendum á aðgengilegan hátt.

Að lokum eru í 2. gr. frumvarpsins lagðar til eftirfarandi breytingar á 108. gr. umferðarlaga:

Í fyrsta lagi er lögð til breyting á f-lið 1. mgr. í þeim tilgangi að ákvæði um stöðubrotsgjöld taki til nýrrar 2. og 4. mgr. 83. gr. umferðarlaga. Með breytingunni er stöðuvörðum heimilt að sekta ökutæki sem ekki hafa greitt gjald fyrir notkun stöðureitsins.

Í öðru lagi er lagt til að veita sveitarstjórnum heimild til að nýta stöðubrotsgjöld til að standa straum af kostnaði við fleira en rekstur bifreiðastæða og bifreiðageymslna til almenningsnota líkt og kveðið er á um í núverandi lögum. Breytingin gerir ráð fyrir að stöðubrotsgjöld megi nýta til að standa straum af byggingarkostnaði, viðhaldi og rekstri stöðureita og bifreiðageymslna til almenningsnota, þ.m.t. launum varða og kostnaði við uppbyggingu, viðhald og rekstur þjónustu sem veitt er í tengslum við notkun stöðureitar, svo sem salernisaðstöðu, gerð og viðhaldi göngustíga og tenginga við önnur samgöngumannvirki.

Virðulegur forseti. Ég hef nú gert grein fyrir þessum helstu efnisatriðum í frumvarpinu. Ég legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hæstv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.