146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

umferðarlög.

307. mál
[17:20]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hélt í smástund að ég hefði hálftíma, klukkan sýndi það, hugsaði mér gott til glóðarinnar að spjalla við ráðherra okkur til mikillar gleði í hálftíma. Ég er ekki einn þeirra sem biðst forláts á að lengja umræðuna eins og margir gera í ræðustól. Ég held að við séum hér til að ræða saman. Ég ætla hins vegar ekki að lengja umræðuna mikið í þessu tilviki.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta yfirferð yfir málið. Við tökum þetta mál til okkar í umhverfis- og samgöngunefnd og munum ræða það þar. Í grunninn fagna ég frumvarpinu og framlagningu þess. Í raun og veru hefði ég haldið að svona frumvarp hefði átt að koma fram fyrir löngu síðan. Það hefur verið einhver tregða í okkur og stjórnvöldum að fara í aðgerðir sem nýtast í uppbyggingu þegar kemur að ferðamálum. Ég hef talað um það hér og geri það því að það er mín bjargfasta trú að ég held að við höfum almennt hugsað málin vitlaust þegar kemur að þessum málum. Það hefur dálítið verið eins og við höfum ekki getað eytt krónu í uppbyggingu öðruvísi en að vera búin að marka hana einhvers staðar í tekjustofnum áður. Þannig hefur ferðaþjónustan búið við það að allt of lítið fé hefur farið í innviðauppbyggingu þegar kemur að henni því að við höfum verið að reikna með að það kæmu beinar tekjur þar inn á móti. Í stað þess að horfa til þeirra gríðarlegu fjármuna sem hafa komið inn í samfélagið í gegnum ferðaþjónustuna höfum við alltaf þurft að vera með einhverja beintengingu á milli tekna og útgjalda í þessu tilviki. Þess vegna fagna ég því að ráðherra leggi þetta mál fram.

Ég treysti því að þetta verði eitt af fjölmörgum frumvörpum og þingsályktunartillögum sem munu koma frá hæstv. ríkisstjórn er lúta að þessum sömu málum því að bílastæðagjöld ein og sér gera ekkert nema standa undir bílastæðum. Ég fagna því þess vegna að það kemur skýrt fram í frumvarpinu hver er tilgangur þessara gjalda, hvernig tekjum sem við þau innheimtast skuli eytt. Með leyfi forseta:

„Fjárhæð gjalds samkvæmt þessari grein miðast við að standa straum af byggingarkostnaði, viðhaldi og rekstri stöðureita, þ.m.t. launum varða, og kostnaði við uppbyggingu, viðhald og rekstur þjónustu sem veitt er í tengslum við notkun stöðureitar, svo sem salernisaðstöðu, og gerð og viðhaldi göngustíga og tenginga við önnur samgöngumannvirki.“

Þetta er nú heila málið þegar kemur að þessu, virðulegi forseti, því bílastæðagjöld eru þjónustugjöld. Þau má ekki nýta í neitt annað en þann kostnað sem til fellur við veitingu þjónustunnar. Ég treysti því að hæstv. ráðherra og samverkafólk í ráðuneytinu hafi skoðað vel að allt það sem hér er upp talið rúmist þar innan, salernisaðstaða til að mynda, vona að svo sé því að það er gott, það þarf að veita slíka þjónustu. Mér hefur á stundum þótt ýmsir hv. kollegar mínir á þingi tala eins og bílastæðagjöld séu eitthvert svar við skorti á uppbyggingu innviða almennt þegar kemur að ferðaþjónustu og bílastæðagjöld geti orðið einhver tekjustofn fyrir ríkissjóð til að fara almennt í uppbyggingu. Ég fagna því að hæstv. ráðherra veður ekki í þeirri villu og svíma heldur geri sér grein fyrir því að hér er verið að leggja til þjónustugjöld og að innheimtar tekjur fari beint í það að veita þá þjónustu.

Ég hlakka til að skoða þetta mál í umhverfis- og samgöngunefnd. Það er ýmislegt sem þarf að skoða betur. Hér er rætt um land í eigu ríkisins. Hér er komið inn á þjóðlendur og náttúruverndarsvæði. Ég hygg að það sé lítil ástæða til að úttala sig á þessu stigi málsins um ýmis þau mál sem í frumvarpinu er að finna önnur en þau að þetta er fín leið til að koma upp nauðsynlegri aðstöðu víða og sveitarfélögin geti komið henni upp. Ég brýni hæstv. ráðherra og samráðherra hans í hæstv. ríkisstjórn til verka þegar kemur að því að horfa til þess að það þarf meira til, það þarf mun meira til en þetta þegar kemur að því að sinna byggingu innviða, bæði hvað varðar ferðaþjónustuna og svo almennt í náttúru okkar og vegakerfi.