146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

umferðarlög.

307. mál
[17:32]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aftur lýsi ég ánægju minni með að við hugsum á skapandi hátt um þessi mál. Ég er ekki viss um að hæstv. ráðherra hafi séð það fyrir, þegar hann mætti hingað í þingsal, að umræðan mundi að mestu snúast um gjöld í ferðaþjónustunni, en það er gott að hæstv. ráðherra heyri þær hugleiðingar hér.

Ég kem aftur inn á það sem ég kom inn á hér áðan. Í þessum efnum held ég að við verðum að skoða alla möguleika. Ég held að það versta sem við gerðum í því væri að festa okkur við einhverja eina rétta leið. Það má vel vera að leiðin sem hv. þingmaður nefnir sé mjög góð, þá er um að gera að skoða hana. En það á ekki að útiloka neina leið í þessum efnum. Við eigum að vera tilbúin til að skoða allar leiðir og endurskoða umhverfi þessa geira frá A til Ö.

Aftur, af því að mér finnst það svo mikilvægt, ætla ég að nefna það hvað við erum gjörn á að hugsa nánast hverja einustu krónu sem fer út á þann veg að búið sé að afla hennar í mörkuðum tekjustofni, þannig að það sé nánast króna á móti krónu. Sú stefna hefur verið við lýði allt of lengi sem hefur orðið til þess að víða er landvörslu ábótavant. Víða er það þannig að stöðugildi landvarða eru hlægilega fá. Stofnanir hafa jafnvel ekki efni á að ráða í afleysingar eða hvernig sem það er. Við eigum ekkert að vera að bíða eftir því að koma á einhverju kerfi, þó að við hv. þingmaður hlökkum vissulega til að takast á við að finna það. Við eigum einfaldlega að horfa á það sem skyldu okkar að auka við landvörslu. Við erum með landið að láni. Okkar er að verja það.