146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

umferðarlög.

307. mál
[17:34]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Virðulegi forseti. Það er svolítið sérkennilegt að ræða hér umferðarlög en vera í raun og veru að tala um ferðaþjónustu. Það segir svolítið um það hvert við erum komin í málefnum ferðaþjónustunnar að sumu leyti.

Bílastæðagjöld gefa einhverja upphæð á hverju ári. Það er erfitt að sjá það fyrir. Ég tek það fram að mér finnst þetta jákvætt að mörgu leyti og sérstaklega að þarna komast sveitarstjórnir í peninga, sem er nú frekar sjaldgæft þegar kemur að ferðaþjónustunni. Hins vegar geri ég mér ekki alveg grein fyrir, og það er kannski ófyrirséð og e.t.v. hefur ekki verið farið vandlega í gegnum það, hvað verði nú aflögu af meðalháu bílastæðagjaldi, við skulum segja 500 kr. Ég get ekki ímyndað mér að menn séu með mjög há bílastæðagjöld á stöðum eins og hér um ræðir, að þetta séu tímamæld gjöld, stöðumælar. Hvað ætli verði eftir þegar búið er að ganga frá bílastæðinu sjálfu og reka það? Er í raun um að ræða um upphæðir sem skipta máli í uppbyggingu innviða í ferðaþjónustunni? Eru einhverjar hugmyndir um það hjá ríkisstjórninni eða ráðuneytinu hvaða upphæðir eru hér er á ferðinni? Skilgreiningin á bílastæðagjöldum sem þjónustugjöldum — ég spyr á móti: Eru göngustígar þjónusta? Ég get alveg ímyndað mér að salerni séu það eða bílastæðavörðurinn sem gengur um, en í raun og veru er verið að teygja bílastæðagjöldin út í að vera eins konar skattur, ég lít svo á.

Ég hef oft velt fyrir mér af hverju þessi eina gjald- eða tekjuleið er nefnd í málefnasamningi ríkisstjórnar, hvort það hafi raunverulega verið minnsti sameiginlegi samnefnarinn sem þessir flokkar gátu komið sér saman um. Ekkert annað er nefnt þar. Það er mjög sérkennilegt að sjá málefnasamning ríkisstjórnar með bílastæðagjöldum. Gott og vel. Það kann einhver annar að skýra það út.

Eins og hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé nefndi í máli sínu beinir það sjónum að tekjuöflun vegna ferðafólks á faraldsfæti. Skorturinn á fé til framkvæmda hefur verið æpandi mjög lengi. Það er til Framkvæmdasjóður ferðamannastaða og kannski er fátt annað sem hægt hefur verið að úthluta úr, fyrir utan það sem gengur til þjóðgarða og friðaðra svæða frá ríkinu. Það hefði auðvitað verið eðlilegt að leggja fram fleiri hugmyndir strax við stjórnarmyndun um tekjuöflun til ferðaþjónustunnar umfram bílastæðagjöld. Við höfum talað um aðgangseyri að stöðum. Ég legg ekkert mat á réttmæti þess. Komugjöld eða brottfarargjöld og breytingar á virðisaukaskatti og beinar fjárfestingar frá ríkissjóði o.s.frv., það eru til mjög margar leiðir.

Við auglýsum eftir heildstæðu plani, þó að það heyri ekki undir samgönguráðherra fyrst og fremst, en engu að síður að fram komi hjá ríkisstjórninni hvernig þessari tekjuöflun skuli háttað, vegna þess að ástandið er mjög alvarlegt þegar kemur að mjög mörgum fjölsóttum ferðamannastöðum á Íslandi. Það beinir sjónum að öðrum hliðum ferðaþjónustunnar eins og því sem mér hefur verið mjög tíðrætt um, þolmörkum, sjálfbærni, ítölu, aðgangsstýringu og öðru slíku sem komið hefur inn á borð þingsins í gegnum umræður, en hefur ekki náð virkilegri fótfestu í allri stefnumótun varðandi ferðaþjónustuna eins og hún er orðin núna.

Að mínu mati er ferðaþjónusta á Íslandi ekki sjálfbær í dag. Það má sjá það með því að fara á 10, 15, 20 fjölsótta ferðamannastaði, það má sjá það í litlum byggðum sem eru nánast að drukkna í erlendum ferðamönnum fyrst og fremst, þannig að ferðaþjónustan er orðin ósjálfbær atvinnuvegur á þeim tiltekna stað í samfélagslegu tilliti. Okkur hættir alltaf til að einblína á náttúrufarslega þáttinn í sjálfbærni.

Ég álít að lausn eins og bílastæðagjöld séu aðeins pínulítill hluti af lausn á því vandamáli og endurtek að ég er ekki á móti frumvarpinu í sjálfu sér, heldur tel ég bílastæðagjöldin í sjálfu sér vera allt of rýran hlut í þessu stóra máli. En er þetta kannski skref á réttri leið.

Ég ætla að varpa fram þeirri spurningu hvers vegna ekki var farið út í það við stjórnarmyndunina og í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar að fjalla um fjárhagshlið, tekjuhlið, ferðaþjónustunnar á Íslandi þannig að það væri þá meira bragð að því sem við þingmenn þurfum að hugleiða þegar við fáum svona frumvarp inn á borð til okkar. Eins og margsinnis hefur komið fram í máli þingmanna sem hafa tjáð sig hér þarf að horfa heildstætt á þetta mál, þ.e. vanfjármagnaðar ferðaþjónustuúrbætur, við getum orðað það í svo löngu máli. Eftir því auglýsi ég hér með.