146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

umferðarlög.

307. mál
[17:48]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Þetta frumvarp eitt og sér, eins og hv. þingmaður bendir réttilega á, hefur ekki þann tilgang einan að stýra aðgengi. Það er hárrétt. Það sem ég segi í minni ræðu, og ég er hlynntur því og tek heils hugar undir það, er að í hinu stóra samhengi hlutanna sé þetta rétt skref, þ.e. á þeirri vegferð að finna lausnir á vanda sem við stöndum frammi fyrir. Þetta er gott skref og það er nauðsynlegt að finna boðlegar lausnir hvað varðar aðgangsstýringu á viðkvæmum og fjölsóttum ferðamannastöðum.

Í augum einhverra kann það að fela í sér aðgangsstýringu eða einhvers konar hindrun að mæta á svæði þar sem gjald er tekið á bílastæðum. Það kann að vera að sá hinn sami leiti þá eitthvert annað til að skoða náttúruna. Ég held að þetta atriði eitt og sér, ég get svo sem verið sammála hv. þingmanni um það, sé ekki þess eðlis, enda eingöngu um þjónustugjald að ræða, og það kemur skýrt fram.