146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

umferðarlög.

307. mál
[17:50]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég held að ég og hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson séum í grunninn sammála um það sem er undir í frumvarpinu. Frumvarpið eitt og sér, eins gott og það er, svarar ekki öllum áskorunum sem við stöndum frammi fyrir varðandi stóraukinn fjölda ferðamanna vítt og breitt um landið. En það er að mínu mati mikilvægt skref að við opnum á það fyrir sveitarstjórnir, sem eru jafnvel með gríðarlega stórt landflæmi undir, að þær fái þetta tól í hendur til þess að bregðast við og gæta að átroðningi þar sem þess er þörf og þá sérstaklega vegna umhverfissjónarmiða. Ef þau geta haft eitthvert skipulag sem tengir þá þjónustu sem þarna er undir, hvort sem um er að ræða salernisaðstöðu eða bílastæði á góðum stað en ekki út um allar koppagrundir í kringum tiltekið svæði, þá erum við að fikra okkur fram á veginn og í rétta átt.

En hvað varðar aðgangsstýringu, og það er undir í þessu máli, má benda á orð þjóðgarðsvarðar í fjölmiðlum í dag sem sanna mikilvægi þessa máls. Hann segir að Þingvellir væru í rúst, það eru vissulega dálítið stór orð, ef Þingvallanefnd hefði ekki haft heimild til að bregðast við og koma skikki á öll bílastæðamál á Þingvöllum.