146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

umferðarlög.

307. mál
[17:58]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna tækifærinu til að ræða um þetta mál á heiðarlegum nótum. Það er stundum þannig að við tiplum aðeins á tánum í kringum hugmyndir varðandi skatta og gjaldtöku. Hér fyrir utan eru bílastæði á gjaldsvæði 1 í Reykjavík. Klukkutíminn kostar 200 og eitthvað krónur. Ögn fjær í burtu, við Sæbraut, er bílastæði þar sem klukkutíminn kostar kannski 20 krónur eftir ákveðinn tíma. Það er enginn munur á því hvað það kostar fyrir bílastæðavörð að koma við hér eða á Sæbrautinni. Það er augljóst að munurinn þarna stafar ekki af kostnaði, hann stafar af því að eitt stæði er eftirsóknarverðara en annað.

Ég sæi alveg fyrir mér í því að menn gætu beitt mismunandi gjaldtöku að einhverju leyti til þess að bregðast við því að sum svæði eru einfaldlega vinsælli en önnur. Ég hef ekki algerlega skýrt í kollinum hvernig fyrirkomulagið ætti að vera. Ég sæi alveg fyrir mér í einhverjum draumaheimi að fyrirkomulagið væri betra ef það væri þannig að kerfið væri kannski eitt, þ.e. að menn þyrftu ekki að hafa 40 ólíka nema og rafskynjara í bílnum sínum til að geta komist inn á öll svæði landsins, heldur væri kerfið að einhverju leyti samræmt. En síðan gætu annaðhvort sveitarfélög eða aðrir aðilar eftir atvikum fengið aðgang að því kerfi. Það er mín heildarsýn á þá hluti þó að hún tengist ekki umræðu þessa frumvarps.