146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

umferðarlög.

307. mál
[18:02]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég hef velt fyrir mér ýmsum tekjuöflunarleiðum í ferðaþjónustu, t.d. komugjöldum eða náttúrupassa. Ég tel að af öllum þeim leiðum séu leiðir í þá veru farsælastar. Þær leysa það best að vera sanngjarnar. Það eru þá þeir sem borga sem njóta hlutarins. Það hefur líka þau áhrif að það stýrir betur flæði ferðamanna frá þeim stöðum sem eru ofsetnir. Alla vega gefur það þann möguleika frekar en t.d. komugjöld eða náttúrupassar.

En af því að þingmaður vísar til umræðu minnar um bílastæðagjöld innanbæjar benti ég á að í rauninni eru þær heimildir sem sveitarstjórnir hafa í dag til að taka gjöld af bílastæðum að einhverju leyti svipaðar og þessar. Þar er ekki um að ræða skatt heldur þjónustugjöld. Ég veit hins vegar að Reykjavíkurborg hefur getað túlkað það þannig að þau standi undir rekstri Bílastæðasjóðs í heild sinni, þeirrar stofnunar sem þar um ræðir. Þá kannski er tækifæri innan þess sjóðs að hafa tekjuöflun með þeim hætti að tekið sé meira gjald á þeim stöðum þar sem markaðslegar forsendur eru fyrir því. Ég sæi fyrir mér að það væri möguleiki að gera eitthvað svipað. En eins og ég segi er þetta frumvarp eitt og sér ekki endilega innlegg í þá umræðu.