146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

málefni aldraðra.

223. mál
[18:16]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1990, um akstursþjónustu.

Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Elsa Lára Arnardóttir, Lilja Alfreðsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Þórunn Egilsdóttir.

Frumvarpið er ekki langt, það er tvær greinar, og snýr að því að tryggja að aldraðir sem búa við fötlun eða skerðingu njóti sambærilegra réttinda og fatlað fólk hefur notið á grundvelli laga um fatlað fólk. Hér er sem sagt verið að leggja eftirfarandi til, með leyfi forseta:

„Aldraðir skulu eiga kost á akstursþjónustu á vegum sveitarfélags sem miðar að því að þeir geti farið allra sinna ferða á þann hátt sem þeir kjósa og á þeim tíma sem þeir velja gegn viðráðanlegu gjaldi. Markmið akstursþjónustu er að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar eða annarra skerðinga kleift að stunda atvinnu“ — og þar er verið að endurspegla að það eru orðið mun fleiri sem eru 67 ára og eldri sem vinna — „og nám“ — við höfum líka séð aukningu hvað það varðar — „og njóta tómstunda.

Jafnframt skulu aldraðir eiga rétt á akstursþjónustu á vegum sveitarfélaga vegna aksturs á þjónustustofnanir og vegna annarrar þjónustu sem þeir njóta samkvæmt lögum um þjónustu við aldraða.

Ráðherra er heimilt að gefa út leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélögin um rekstur akstursþjónustu á grundvelli þessa ákvæðis. Sveitarstjórnum er jafnframt heimilt að setja reglur um þjónustuna á grundvelli ákvæðisins og leiðbeinandi reglna ráðherra.“

Hér er jafnframt heimildarákvæði um að innheimta sanngjarnt gjald fyrir akstursþjónustuna samkvæmt gjaldskrá sem sveitarstjórnir skulu setja og að gjaldið skuli vera sambærilegt gjaldi fyrir almenningssamgöngur á viðkomandi svæði.

Það kann að vera að einhver hefði talið að þetta væri þegar fyrir í lögum því að mörg sveitarfélög hafa sinnt þessari þjónustu, en það hefur hins vegar ekki byggt á lagaskyldu. Hér er sem sagt kveðið almennt á um rétt til akstursþjónustu. Er það von mín að það muni fækka gráum svæðum í verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga.

Þetta frumvarp byggir á vinnu sem var unnin í velferðarráðuneytinu um breytingar á félagsþjónustulögunum og lögum um málefni fatlaðs fólks. Þar eru fjölmörg önnur ákvæði sem ég mundi gjarnan vilja annaðhvort fá að mæla fyrir sjálf eða að ráðherra kæmi hér inn og mælti fyrir þeim, sem snúa að mikilvægri réttarbót, annars vegar fyrir fatlað fólk og hins vegar fyrir aldraða og aðra þá sem þurfa á félagsþjónustu að halda frá sveitarfélögunum.

Varðandi nákvæmlega þetta sérstaka ákvæði hefur afstaða Sambands íslenskra sveitarfélaga verið að það séu óljós ábyrgðarskil á milli heilbrigðis- og öldrunarþjónustu annars vegar og fötlunarþjónustu hins vegar. Það hefur leitt til þess að komið hafa upp mál þar sem einstaklingur sem hefur óskað eftir því að fá akstursþjónustu hefur ekki fengið hana. Það hefur sérstaklega komið fram þegar fólk hefur farið inn á þjónustustofnanir þegar einstaklingur verður fyrir áfalli eða skerðingu eftir 67 ára aldur. Það er von mín að með því að samþykkja þetta frumvarp og það verði að lögum skýri það ábyrgðarskilin og tryggi þessa mikilvægu réttarbót fyrir aldrað fólk sem býr við ákveðnar skerðingar.

Ég vil hins vegar taka fram, virðulegi forseti, að hér er um nýja lagaskyldu að ræða fyrir sveitarfélögin. Það sinna ekki öll sveitarfélög þessu þannig að það gæti fyrirsjáanlega haft í för með sér ákveðinn kostnaðarauka.

Þegar umræðu um málið er lokið mundi ég gjarnan vilja að hv. velferðarnefnd fjallaði um málið og færi betur yfir og aflaði upplýsinga um kostnaðinn sem tengist þessu ef hann liggur fyrir, en ég hafði ekki upplýsingar um hann.