146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

málefni aldraðra.

223. mál
[18:21]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta frumvarp. Hún svaraði því sem ég ætlaði að spyrja um í lok ræðunnar varðandi kostnaðinn. Ég er svo sannarlega sammála því og tek undir þetta með að skýra ábyrgðarskilin, eins og hér er sagt að sambandið vilji gera, og skiljanlega viljum við skýra þau. Við þekkjum þá umræðu hjá sveitarfélögunum að sífellt sé verið að bæta á þau tiltekinni þjónustu sem ekki fylgi með fjármunir o.s.frv. Hér er gengið út frá því að það megi rukka fyrir þessa þjónustu.

Ég veit að þingmaðurinn þekkir þessi mál mun betur en ég, þ.e. innviðina, og þá langar mig að spyrja hann. Það segir hér að þetta sé sambærilegt og gagnvart fötluðu fólki. Eru ákvæði um það í þeim lögum að taka megi gjald fyrir þessa þjónustu líka? Er þetta sambærilegt?

Ég er alveg hjartanlega sammála því að aldraðir, hvort sem þeir hafa orðið fyrir tiltekinni skerðingu eða ekki, eigi að njóta þessarar þjónustu. Ég bý í sveitarfélagi þar sem eru 15 kílómetrar á milli og alls ekki allir sem hafa tækifæri eða eiga bíl eða hafa getu til þess að keyra og eru að sækja sér þjónustu beggja vegna. Maður finnur bara og skynjar að það er þörf fyrir slíka þjónustu. Það eru ekki almenningssamgöngur þarna á milli, það er eitt af því sem sveitarfélagið hefur ekki treyst sér til að fara út í nema í gegnum skólabílinn, sem er auðvitað ekki almenningssamgöngur sem slíkar. Mig langar að spyrja hvort þetta sé sambærilegt.