146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

málefni aldraðra.

223. mál
[18:25]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Þetta er akkúrat það sem maður hefur verið að ræða. Þar sem ég hef starfað í sveitarstjórn veit ég að það er ein af þeim umræðum sem sífellt er til staðar, hvernig við getum bætt og samþætt þjónustu við fullorðið fólk, við fatlað fólk, við börnin okkar o.s.frv. til þess að búa til heildstæða þjónustu. Það var auðvitað tilefni til þess að flytja málefni fatlaðs fólks yfir til sveitarfélaga. Það hefur í rauninni verið kallað eftir því að flytja málefni eldri borgara líka yfir til sveitarfélaganna, en eðlilega hefur verið staldrað aðeins við þar sem sá kostnaður sem hefur fylgt nærþjónustunni eftir að hún fór yfir hefur orðið meiri en gert var ráð fyrir. Við höfum líka innleitt íþyngjandi reglugerðir og annað slíkt fyrir sveitarfélögin en um leið aukið þjónustu fyrir fólkið.

Þetta á að vera til þess að jafna réttinn og jafna stöðu fólks þannig að það búi við sambærileg lífsgæði. Ég lít þannig á að það séu lífsgæði að geta komist á milli staða, að geta sótt sér þjónustu og þurfa ekki að vera upp á fólkið sitt kominn og jafnvel hafa það ekki til þess að sinna sér, börn eða aðra aðstandendur. Mér finnst þetta því mjög skynsamlegt. Ég vona að sveitarfélögin bregðist ekki neikvætt við með því að fara í þann gír strax að þetta kosti of mikið heldur að farið verði í að vega þetta og meta og þá hvert gjaldið þyrfti að vera sem yrði innheimt og ef það er talið of hátt fyrir einstaklinga yrði það kannski á einhvern hátt brúað af ríkinu.