146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

málefni aldraðra.

223. mál
[18:29]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að veita andsvar, ég ætla að veita samsvar og höggva dálítið í sama knérunn og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.

Um leið og ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir framlagninguna og yfirferðina set ég það algjörlega hennar í hendur hvort hún svari mínu samsvari. Ég ákvað bara að koma hingað upp og segja að mér finnst þetta mjög áhugavert frumvarp, en það vekur upp ýmsar spurningar eins og hv. þingmaður kom inn á, sem er mjög vel, og að skoða þurfi ýmislegt í þessu. Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir kom inn á það að kannski þyrfti á einhvern hátt að brúa það af ríkinu ef til þess kæmi. Það er eitthvað sem þarf að skoða.

Það sem mér finnst mikilvægt í greinargerðinni, eða einn af mörgum mikilvægum punktum eru þessi óljósu skil sem komið er inn á þegar einstaklingur verður fyrir áfalli eða skerðingu eftir 67 ára aldur. Það sem meira er að það er í sumum tilvikum þannig að einstaklingur sem hefur notið ákveðinna réttinda undir 67 ára aldri missir þau kannski þegar hann er kominn yfir þau aldursmörk sem er náttúrlega alveg galið, svo ég leyfi mér bara að segja það.

Hér hefur aðeins verið komið inn á gjaldskrána og hvernig það allt skuli vera. Hér er miðað við almenningssamgöngur. Augljóst er að það er eitthvað sem þarf að greiða með, því að það gjald mun ekki standa undir svona löguðu. Hvað varðar akstursþjónustu á vegum sveitarfélags, eins og ferðaþjónusta fatlaðra og annað slíkt, þá er ekki alls staðar samræmi þar á milli, eins og hv. þingmaður þekkir mjög vel, og ekki einu sinni eftir öllum skerðingum. Blindir eru með sérsamning og svo er almenn ferðaþjónusta.

Ég vil bara fagna því að þetta frumvarp hafi verið lagt fram. Ég hefði verið til í að ræða þetta mikið við hv. þingmann. Ég held að við séum sammála og held að hv. þingmaður hafi svörin við mörgum spurningum. (Forseti hringir.) En henni er algjörlega í sjálfsvald sett hvort hún svarar þessu samsvari mínu.