146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

málefni aldraðra.

223. mál
[18:31]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þó að það megi ekki finna í þessu stutta frumvarpi, þá er held ég mjög mikilvægt að í félagsþjónustulögunum og í þeirri þjónustu sem sveitarfélög veita sé horft í auknum mæli á þörfina, mat á þörfinni, að við horfum ekki einmitt á einhver aldursmörk, að við 67 ára aldurinn eigi fólk að fá ákveðna tegund af heimaþjónustu, heldur hvort fólk hafi raunverulega þörf fyrir slíka þjónustu eða ekki. Við vitum það öll mjög vel að sjötugur einstaklingur — þú getur verið með tvo sjötuga einstaklinga og líkamleg heilsa þeirra er mjög ólík. Annar er mjög langt frá því að þurfa á einhverri aðstoð að halda meðan hinn þarf á mikilli aðstoð að halda. Það hefur verið mjög einkennilegt að kynnast því að bara við það að eiga afmæli þá allt í einu á maður að losna við skerðingu sem maður hefur jafnvel verið með alla ævi, læknast af örorku sinni eða fötlun. Við vitum bara að raunveruleikinn er ekki þannig.

Sveitarfélögin hafa verið að þróa í samstarfi við ráðuneytið betra mat á þjónustuþörfinni þannig að í auknum mæli sé hægt að veita þeim betri þjónustu sem þurfa á mikilli þjónustu að halda. En við sem höfum betri heilsu og þurfum ekki á þjónustunni að halda að sama skapi fáum þá minni eða jafnvel enga þjónustu á móti. Það hefur alla vega verið mín afstaða að við eigum að hjálpa þeim sem þurfa á aðstoð að halda.