146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

málefni aldraðra.

223. mál
[18:35]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hér og spyr raunar um yfirfærslu verkefna til sveitarfélaganna, hvort sveitarfélögin hafi fengið þá fjármuni sem þau hefðu þurft á að halda við yfirfærsluna. Ég vil gjarnan halda því fram, alla vega því sem snýr að málefnum fatlaðs fólks, að umtalsverðir fjármunir hafi fylgt þeim verkefnum. Það hafi líka verið ákvæði um endurmat á reynslunni við flutninginn og fjármunir hafi bæst við enn frekar. Hins vegar er það þannig að ekki er hægt að gera ráð fyrir, sérstaklega í málaflokki sem er í stöðugri þróun, að það sé einhvern veginn þannig að verkefnin taki ekki breytingum. Það eru ýmis verkefni þarna sem hafa bæst við, verkefni sem reyndust vera dýrari, þannig að ríkið hefur reynt eins og hægt er að koma til móts við sveitarfélögin hvað það varðar.

Það var að vísu gripið til annarra stórra aðgerða á síðasta kjörtímabili sem sneru ekki beint að félagsþjónustunni eða lögum um málefni aldraðra eða fatlaðs fólks, heldur var einfaldlega verið að taka á stórum lífeyrissjóðaskuldbindingum, gífurlegir fjármunir sem ríkið varð að taka á sig til þess að létta af sveitarfélögunum. Þó að það hafi verið mín ákvörðun eða afstaða á sínum tíma að það væri t.d. ekki rétt að halda jafn hratt áfram yfirfærslu frekari verkefna fyrr en búið væri að ljúka við yfirfærsluna varðandi málefni fatlaðs fólks, þannig að því var frestað hvað varðar þjónustu við aldraða, þá hef ég séð að sveitarfélögin t.d. á höfuðborgarsvæðinu hafa verið að vinna saman í tíu ár þegar kemur að heimaþjónustu og heimahjúkrun. Við erum stöðugt að vinna á verkefnum. (Forseti hringir.) En við getum alltaf gert betur. Það er það sem skiptir svo miklu máli að hafa í huga. Við erum aldrei búin að því hvað varðar að bæta velferðarþjónustuna.