146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

vogunarsjóðir sem eigendur banka.

[10:31]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Eitt af því sem nefnt hefur verið sem vandamál við að vogunarsjóðir séu kjölfestufjárfestar í bönkum er að þeir eru kvikir fjárfestar, það þýðir að þeir leita tækifæra frá einum degi til annars en liggja sjaldnast með fé sitt í sama fyrirtæki. Fyrrverandi forstjóri Straums fjárfestingarbanka, Pétur Einarsson, sagði í samtali við Morgunblaðið að vogunarsjóðir séu í eðli sínu lokaðir klúbbar og ekki eftirlitsskyldir eins og bankar, eignarhald þeirra og starfsemi sé ekki opinber. Þá telur hann einnig vogunarsjóði óheppilega eigendur banka, þeir séu ekki langtímafjárfestar og hafi ekki áhuga á rekstri.

Hæstv. forsætisráðherra Bjarni Benediktsson hefur á hinn bóginn fagnað tíðindunum um kaup vogunarsjóða á Arion banka og segir það sýna, með leyfi forseta, „ótvírætt traust á aðstæðum hérlendis og það eru sannarlega góðar fréttir ef hingað vilja koma öflugir erlendir aðilar sem eru tilbúnir að gerast langtímafjárfestar í íslenskum fjármálafyrirtækjum“.

Það er athyglivert að forsætisráðherra telji að vogunarsjóðir séu öflugir erlendir langtímafjárfestar. Hingað til hafa þeir ekki verið taldir tilheyra þeim hópi. Einn af forystumönnum þeirra vogunarsjóða sem var að festa sér Arion banka sagði einmitt í samtali við Morgunblaðið, með leyfi forseta:

„Ég veit ekki hve lengi við höldum þessu“ — þ.e. fjárfestingunni í Arion banka — „það fer eftir því hvað markaðurinn er lengi að meðtaka virði og horfur bankans.“

Hæstv. forsætisráðherra fagnar langtímafjárfestum, en fjárfestirinn hefur ekki hugmynd um hversu lengi hann ætlar að halda á þessari fjárfestingu.

Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. forsætisráðherra þriggja spurninga:

Er hann sammála fyrrverandi forstjóra Straums um að vogunarsjóðir séu óheppilegir eigendur banka?

Telur hann að kaup þeirra séu til þess fallin að auka traust almennings á bankakerfinu?

Þá vil ég einnig inna hann eftir því hvort hann telji það siðferðilega verjandi að einn af sjóðunum sem keypti Arion banka hafi orðið uppvís að stórfelldu misferli í Afríku og þurft að greiða hundruð milljóna dala í sekt fyrir vikið og sé nú kominn með lánshæfismat í ruslflokk, fyrir utan það að vera með slóð eignarhalds tæplega (Forseti hringir.) 17% hlutar í Arion banka sem endar á Cayman-eyjum samkvæmt þeim opinberu (Forseti hringir.) upplýsingum sem eru tiltækar en eru þó litlar. Er forsætisráðherra sáttur við þetta fyrirkomulag?