146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

vogunarsjóðir sem eigendur banka.

[10:36]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það er rétt eins og kemur fram hjá hæstv. forsætisráðherra að við viljum ekki að allir þessir fjármunir renni út úr íslensku efnahagslífi. En er ekki akkúrat það sem er að gerast að vogunarsjóðirnir eru að ná í þessa fjármuni og fara með þá úr landi? Það er líka rétt að það er ekki ríkið sem er að selja. En er það trúverðugt að slíkir aðilar hafi farið í svona stóra fjárfestingu á mikilvægri stofnun, kjölfestustofnun í íslensku fjármálakerfi, án þess að hafa til þess tiltekið samþykki stjórnvalda?

Nú vitna ég hér til orða eins þeirra sem keypti og sagði, með leyfi forseta:

„Ástæða þess að við takmörkuðum eignarhlut okkar við 9,99% var að við vildum ekki tefja söluferlið. Það var mikilvægt fyrir Kaupþing og einnig eitthvað sem yfirvöld litu jákvæðum augum.“

Nú spyr ég: Hvaða yfirvöld voru það sem litu það jákvæðum augum að farið yrði í þessa vegferð? Það er mikilvægt að það fáist skýrt svar við þeirri spurningu.