146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

vogunarsjóðir sem eigendur banka.

[10:37]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Það er misskilningur í gangi hér varðandi það að meiri fjármunir fari út úr landinu en ella hefði verið vegna þess að erlendir aðilar koma inn með nýtt fjármagn. Það er einmitt öfugt. Það koma nýir fjármunir inn sem losa um veð. Það er snilldin í þeim samningum sem síðasta ríkisstjórn gerði. Menn komast ekki undan þessu. Menn komast ekki undan skilyrðunum sem við settum. Jafnvel þótt innlendir aðilar hefðu keypt allan þennan hlut og þeir fjármunir hefðu farið um gjaldeyrismarkaðinn og ratað út til kröfuhafanna væri þeim skilyrðum samt mætt sem við þá settum. Það er snilldin í samningunum sem við gerðum á sínum tíma. Forkaupsréttarákvæði íslenska ríkisins var einnig til varnar, til þess að koma í veg fyrir að menn myndu selja sjálfum sér hlutina á allt of lágu verði og komast þannig í kringum þá skilmála sem við gerðum.

Ég veit ekki í hvað er verið að vísa þegar sagt er að einhver stjórnvöld hafi litið það jákvæðum augum að þessi leið yrði farin. En (Forseti hringir.) hitt er hins vegar alveg skýrt að við erum með lög í þessu landi sem kveða á um það að vilji menn fara með tiltekið stóran eignarhlut munu menn þurfa að fá blessun Fjármálaeftirlitsins. (Forseti hringir.) Ég hef enga ástæðu til þess að ætla annað en að þar verði farið vel og vandlega yfir þessi mál.