146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

samningur við Klíníkina.

[10:46]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar einnig að eiga orð við hæstv. heilbrigðisráðherra Óttar Proppé. Proppé spyr Proppé. Þótt mér þyki alltaf gaman að tala við frænda, bæði á þingi og í fjölskylduboðum, þá er tilefnið nú af dálítið sérstökum toga og kannski enn sérstakari eftir síðustu ræðu hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég gat ekki betur heyrt á máli hæstv. ráðherra en að hann svaraði þeirri spurningu um hvort það ætti að gera samning við Sjúkratryggingar varðandi Klíníkina þannig að það ætti ekki að gera, sem þýðir væntanlega að Klíníkin og starfsemi hennar verður ekki að veruleika.

Það hefur verið beðið dálítið eftir þessum svörum og það hefur, því miður, of mikið verið þannig í þessari umræðu að þetta hefur farið að snúast um einhver tæknileg atriði, tilvísanir hingað og þangað í starfsemi SÁÁ, Grund og fleira slíkt sem félagasamtök reka. Það gleymist oft að það hvernig fer um heilbrigðiskerfið okkar er pólitík. Það er stjórnmálaflokka og alþingismanna og sér í lagi hæstv. ráðherra að vera með stefnu í pólitík. Það á að vera hverjum þeim sem sest á ráðherrastól einfalt mál að segja hreint út hvort að viðkomandi sé fylgjandi því að sjúkrahús eða starfsemi af þessum toga sé í gangi, verði leyfð eða ekki. Það er ekki tæknilegt atriðið. Það er beinlínis pólitík sem er hægt að takast á um.

Hér hefur hv. þm. Einar Brynjólfsson áður vitnað í stefnu Bjartrar framtíðar þar sem talað er um að opna meira fyrir fjölbreytileg rekstrar- og þjónustuform. Mig langar þá að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra aftur að þessu sama: Er það tilfellið að það eigi að segja nei við beiðni um samning Klíníkurinnar við Sjúkratryggingar?