146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

samningur við Klíníkina.

[10:50]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessum orðum hæstv. heilbrigðisráðherra. Og jú, það er alltaf hægt að segja hlutina aðeins skýrar. Það er hægt að segja hvort maður telur að starfsemi af slíku tagi rúmist innan þess rammasamnings sem þegar er í gildi við Læknafélag Reykjavíkur, hvort maður haldi að starfsemin verði að veruleika, hverjar maður heldur að afleiðingarnar verði ef starfsemin verður að veruleika, hvort sem er með nýjum samningum eða þeim samningum sem nú þegar eru í gildi. Hefur hæstv. heilbrigðisráðherra áhyggjur af því að ef svo verði geti það aukið ójöfnuð, aðgang að heilbrigðisþjónustunni? Það er hægt að tala mjög skýrt þegar kemur að pólitík um hvað manni sjálfum finnst að eigi að verða að veruleika og hvað maður telur best fyrir samfélagið.

Það er líka hægt að spyrja skýrt: Telur hæstv. heilbrigðisráðherra að af þessari starfsemi verði og að hún rúmist innan þess rammasamnings sem hæstv. ráðherra vitnaði til?