146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

Klíníkin og stytting biðlista.

[10:53]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Það eru að verða þrír mánuðir síðan erindi Klíníkurinnar voru lögð á skrifborð heilbrigðisráðherra með tilmælum um uppáskrift og samning við ríkið um að fá að starfrækja einkarekið sjúkrahús í Reykjavík í gróðaskyni. Það hefur verið erfitt fyrir hæstv. ráðherra að gera upp hug sinn, það hefur hann sagt sjálfur, en svarið liggur nú fyrir, þetta hik verður ekki skilið öðruvísi en þannig að þetta hafi legið þungt á herðum hans. Það er ekki nema von. Ef hæstv. ráðherra hefði ætlað að stíga þetta skref þá hefði hann gengið gróðaöflunum stefnulítið á vald.

Það vakna auðvitað spurningar í þessu sambandi, hvort enginn flugufótur sé fyrir þeim fregnum sem við höfum, að það væri kominn á samningur um þetta málefni. Mig langar að spyrja líka um viðbrögð ráðherra í framhaldinu varðandi þær aðgerðir sem bíða, það eru biðlistar í liðskiptaaðgerðir sem fleiri hundruð manns bíða eftir og konur bíða líka með vanda sinn, nokkur hundruð konur. Er gert ráð fyrir því að það verði gerðir samningar við opinberar stofnanir í því sambandi? Í hvaða skrefum gæti það verið gert?