146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

Klíníkin og stytting biðlista.

[10:57]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og óska honum auðvitað til hamingju með að hafa tekið þessa heillavænlegu ákvörðun. Auðvitað hefur Klíníkina borið á góma hér ítrekað þar sem í deiglunni hefur verið stefnumarkandi grundvallarbreyting í heilbrigðisþjónustunni með því að semja við einkarekið sjúkrahús um tiltekna þjónustu. En ég vil aðeins árétta þetta atriði gagnvart hæstv. ráðherra: Mun hann beita sér fyrir því að nýta enn betur en áður þær stofnanir sem við eigum öll saman, heilbrigðisstofnanir sem eru í nágrenni Reykjavíkur, til þess að stytta biðlista og efla starfsemina eftir föngum? Þær eru mjög vel búnar að mörgu leyti.