146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

stefna stjórnarflokkanna um einkarekstur í heilbrigðiskerfinu.

[11:04]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Nú finnst mér heldur hafa slegið í bakseglin, þ.e. ástæðan að baki ákvörðun hæstv. ráðherra virðist vera sú að hann hafi kannað hvort hægt væri að gera þetta akkúrat í augnablikinu einhvers staðar annars staðar hjá opinberum stofnunum. Það sem flýtur yfir getuna sem er í kerfinu í dag, því verður þá veitt til einkaaðila hafi ég skilið orð hæstv. ráðherra rétt. Það er sem sagt engin pólitísk sýn á bak við þessa ákvörðun. Það er engin stefna. Það er engin pólitísk sýn Bjartrar framtíðar og þá hæstv. heilbrigðisráðherra í þessu, þ.e. sú sýn að opinber heilbrigðisrekstur skuli vera í forgangi umfram einkarekstur, heldur það hvernig staðan er akkúrat í dag, það sé hægt að snýta meira út úr opinberum stofnunum og varðandi það sem yfir flýtur þá verður leitað eftir einkaaðilum með það. Þetta veldur mér vonbrigðum. (Forseti hringir.) Þetta kveikir upp vafa hjá mér um þau orð sem hæstv. ráðherra sagði áðan ítrekað, (Forseti hringir.) að ekki verði ráðist í frekari einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu (Forseti hringir.) nema að vel undirbúnu máli.