146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

samgönguáætlun.

[11:07]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir að koma og eiga orðastað við okkur um samgönguáætlun og hæstv. virðulegum forseta fyrir að hleypa þessu á dagskrá því þetta eru gríðarlega mikilvæg mál og hafa töluvert verið í umræðunni, ekki að ósekju því það hvernig mál hafa skipast varðandi samgönguáætlun er eiginlega þyngra en tárum taki.

Ég ætla ekki að taka jafn djúpt í árinni og hæstv. fjármálaráðherra og saka hæstv. samgönguráðherra og aðra sem samþykktu samgönguáætlun í október um siðleysi, ekki heldur þá 11 þingmenn sem 71 einum degi síðar samþykktu fjárlög þar sem látið var eins og samgönguáætlun væri ekki til, þ.e. sömu þingmenn og samþykktu bæði samgönguáætlun og fjárlög. Það er í raun kannski ekki skrýtið að þeir hafi látið eins og samgönguáætlun væri ekki til því á síðasta kjörtímabili var sú raunin lengi. Það var ekki virk samgönguáætlun í gangi ef svo má að orði komast af því að hæstv. ríkisstjórn tókst ekki að koma þeim á fót þótt lögboðið sé. Samþykkt var hún á endanum og þá í raun aftur í tímann, en hún varð hálfmarklaust plagg þegar í ljós kom að ekki átti að fara eftir henni við úthlutun fjármuna við samþykkt fjárlaga.

Samgönguáætlun var ekki samþykkt út í bláinn. Allt of lengi hefur fjármuni skort í vegakerfið í uppbyggingu innviða. Ætli það hafi ekki verið tískuorð síðustu kosningabaráttu, innviðauppbygging? Eftir kosningar kom hins vegar annað hljóð í strokkinn hjá sumum flokkum og allt í einu voru ekki til fjármunir í það sem hafði verið lofað og jafnvel samþykkt. Hæstv. samgönguráðherra var býsna beinskeyttur fyrst þegar gagnrýnin fór að heyrast, það yrðu ekki settir meiri fjármunir í samgöngumál, hins vegar yrði settur á fót starfshópur til að skoða hvort ætti að koma á vegtollum. Sem betur fer hefur hæstv. ráðherra aðeins bakkað og er að reyna að sækja aukna fjármuni í samgöngumál. Það er vel.

Hvað vegtolla varðar þá er sú umræða gjarnan út og suður. Það er gríðarlegur munur á vegtollum í umhverfisskyni sem eru settir til að draga úr umferð — til að þeir virki þarf að vera til staðar öflugt almenningssamgöngukerfi — og svo vegtollum til fjármögnunar á uppbyggingu samgöngumannvirkja sem ætluð eru til að greiða fyrir umferð. Þetta er tvennt ólíkt. Það ætti að vera nýjum ráðherra og nýrri ríkisstjórn kappsmál að standa vel að verkum, ekki síst þegar jafn illa hefur gengið varðandi samgönguáætlun og raun ber vitni. Og ríkisstjórn sem kennir sig við baráttu gegn fúski, almannahagsmuni umfram sérhagsmuni, ætti sérstaklega að vera áfram um það.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis, Vegagerðin – skipulag og samruni frá nóvember 2016, er sérstaklega komið inn á mikilvægi uppfærðrar samgönguáætlunar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Tryggja þarf að jafnan sé í gildi uppfærð samgönguáætlun. Mikilvægt er að á hverjum tíma sé í gildi uppfærð samgönguáætlun til lengri og skemmri tíma samþykkt af Alþingi þar sem kveðið er á um heildarstefnu og framkvæmdir í samgöngumálum. Innanríkisráðuneyti er hvatt til að leita leiða til að bæta verklag við gerð og framsetningu samgönguáætlunar.“

Það er kannski rétt að benda á að samgönguáætlun er ekki einhver óskalisti sem ráðherra getur valið úr að eigin geðþótta hvernig verður sinnt. Hún er skýr vilji löggjafans um það í hvaða aðgerðir skuli ráðast á tímabilinu. Það að hún sé þingsályktunartillaga rýrir ekkert gildi hennar eins og sumir hafa reynt að afsaka sig með. Það má benda á að fjármálastefna til fimm ára er einnig þingsályktunartillaga. Færa má rök fyrir því að það sé stærsta plagg hverrar ríkisstjórnar.

Talandi um fjármálastefnuna, hún kemur fram núna á næstu dögum. Verða þar fjármunir tryggðir til samgönguáætlunar? Hvaða samgönguáætlunar þá? Hvenær verður lögð fram uppfærð áætlun?

Mig langar að vitna aftur í fyrrnefnda skýrslu Ríkisendurskoðunar, að þessu sinni í viðbrögð ráðuneytis samgöngumála, ráðuneyti hæstv. samgönguráðherra, með leyfi forseta:

„Innanríkisráðuneytið tekur undir sjónarmið Ríkisendurskoðunar að mikilvægt sé að í gildi sé uppfærð samgönguáætlun til lengri og skemmri tíma. Ráðherra hefur í fjórgang lagt fram fjögurra ára áætlun á Alþingi sem ekki hefur hlotið afgreiðslu fyrr en nú að samþykkt var fjögurra ára samgönguáætlun 2015–2018. Endurskoða þarf vinnulag við samgönguáætlun til samræmis við breytt vinnulag við fjárlagagerð sem fylgir nýjum lögum um opinber fjármál. Þannig setur ríkisfjármálaáætlun til fimm ára fjárhagsramma fyrir útgjöld til samgöngumála, en fram til þessa hefur ákvörðun um fjárhagsramma samgönguáætlunar tekið tíma og gjarnan tafið vinnuna við áætlunargerðina.“

Í þessu ljósi er rétt að spyrja hvort fjármögnun samgönguáætlunar verði tryggð í væntanlegri fjármálastefnu. Hyggst ráðherra fjármagna samgönguáætlun, sem hann samþykkti sjálfur í október, til fulls? Hvernig hyggst ráðherra forgangsraða þeim auknu fjármunum sem mögulega fást til samgöngumála? Hyggst ráðherra leita til einkaaðila með fjármögnun vegakerfisins? Hversu langt er ráðherra kominn í hugmyndum um vegtolla og hvar sér hann þá helst fyrir sér? Hvenær hyggst ráðherra leggja fram uppfærða samgönguáætlun fyrir þingið sem hann treystir sér til að fjármagna?