146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

samgönguáætlun.

[11:12]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem ég held að sé mjög tímabær. Hér er spurt hvort samgönguráðherra ætli að fjármagna samgönguáætlun til fulls sem hann samþykkti sjálfur í október? Því er nú til að svara að það er ekki ráðherra að fjármagna verkefni, það er ráðherra að framkvæma, löggjafarvaldsins að fjármagna. Menn geta velt sér upp úr því endalaust í þessari umræðu að samgönguáætlunin sem unnin var í október hafi ekki verið fjármögnuð. Það er alveg rétt.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum, en eins og ég hef áður sagt er staðan í því máli og var á þeim tíma þannig að menn höfðu miklar væntingar til þess sem yrði til ráðstöfunar á þessu ári. Síðan þegar þingið settist yfir það og náði tiltölulega ágætri sátt um hvert halda skyldi voru áherslurnar þær sem við þekkjum öll hér í þessum sal, þær voru á heilbrigðismál og velferðarmál. Sama krónan verður ekki notuð tvisvar sinnum. Þó var bætt í 4.600 milljónum í samgöngumál frá fyrra ári. Það eru heilmiklir peningar. Það er á einu kjörtímabili um 20 milljarðar kr. Ég geri mér auðvitað vonir um að við fáum mögulega eitthvert fjármagn til viðbótar til brýnna framkvæmda á þessu ári og einnig að eitthvað verði bætt við það í ríkisfjármálaáætlun sem er í vinnslu núna.

Forgangsröðunin tekur mið af lögbundnum markmiðum samgönguáætlunar. Öruggar samgöngur, greiðar samgöngur, umhverfisvænar samgöngur, hagkvæmar samgöngur og jákvæð byggðaþróun. Miða verður við að markmið um öruggar samgöngur verði í forgangi. Það er markmið sem við lögðum upp með strax á fyrstu dögum mínum í ráðuneytinu.

Þá er spurt hvort ráðherra hyggist leita til einkaaðila með fjármögnun vegakerfisins. Við höfum skipað starfshóp til þess að kortleggja hér mjög fjárfrekar stórar framkvæmdir inn og út af höfuðborgarsvæðinu. Sú vinna er í gangi. Nú fjalla sérfræðingar um það hversu stórt það verkefni yrði, hvernig það yrði mögulega fjármagnað ef samstaða tækist um slíkt að fara í gjaldtöku á þessum leiðum og hvaða ruðningsáhrif yrðu þar af því inn í framkvæmdir annars staðar, bæði á höfuðborgarsvæðinu og utan höfuðborgarsvæðisins. Hægt verður að taka málefnalega umræðu um það þegar sú greining liggur fyrir. Ég geri mér vonir um að það verði núna í vor. Lagt er upp með að þetta verði í lok maí.

Ef vegtollar verða settir á verða að vera til öflugar almenningssamgöngur. Ég tek undir það með hv. þingmanni. Það þarf að efla almenningssamgöngukerfið. Þá minni ég á samning sem gerður var 2012 við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um að lagður yrði 1 milljarður kr. á ári til eflingar almenningssamgöngukerfisins á höfuðborgarsvæðinu.

Hversu langt er ráðherra kominn í hugmyndum um vegtolla og hvað sér hann helst fyrir sér í því? Ekki hefur farið á milli mála að ég horfi til þess að á næsta ári koma Hvalfjarðargöngin að fullu í eigu þjóðarinnar. Þá þurfa menn að meta það hvort haldið verði áfram með vegtolla á þeirri leið. Að mínu mati er það ekki réttlætanlegt nema framkvæmdir séu tengdar því á þeirri leið. Við horfum til þess hvort það gæti verið möguleiki víðar, eins og fram hefur komið. Ég er ekki kominn lengra en þetta. Við höfum sett hóp sérfræðinga í þá vinnu að ná utan um þá mynd eins og hún gæti litið út og ég fór yfir áðan.

Þá er komið að samgönguáætlun. Við erum með nýlega samgönguáætlun til þess að gera. Við höfum auðvitað forgangsraðað í því sem við höfum til ráðstöfunar í ráðuneytinu innan hennar. Hún er ekki marklaust plagg. Hún er auðvitað leiðbeining til framkvæmdarvaldsins um það hvaða framkvæmdir skuli farið í, og var ekki vikið frá þeirri stefnu.

Ég tek undir það að það er tímabært að leggja fram aðra samgönguáætlun. Að mörgu leyti hefði verið eðlilegt að það gerðist á haustdögum, en vinna við nýja samgönguáætlun er hafin, bæði til skemmri og lengri tíma. Við eigum að leggja fram fjögurra ára áætlun og endurskoða hana á tveggja ára fresti og gera síðan 12 ára áætlun. En það mun auðvitað hafa áhrif á samgönguáætlun ef samstaða næst um að fara í sérstaka fjármögnun á ákveðnum verkefnum. Við erum með það í skoðun. Við höfum hafið þá undirbúningsvinnu og síðan verður haldið áfram á grundvelli þess hver niðurstaðan verður þar við að fullklára samgönguáætlun. Miðað við það væri raunhæft að hún gæti verið lögð fram í lok þessa (Forseti hringir.) árs eða strax í byrjun næsta árs.