146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

samgönguáætlun.

[11:22]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það var vissulega ákveðið áfall þegar fréttir bárust af frestun framkvæmda í nýsamþykktri samgönguáætlun. Flestir töldu, hvort sem það var nú misskilningur eða óskhyggja, að verið hafi einhvers konar samkomulag um að við endurskoðun fjárlaga yrði horft til þess að tryggja fjármuni í þessa áætlun enda eru verkefnin næg og flest þeirra brýn, eins og við þekkjum. Sum verkefnin hafa verið árum saman á samgönguáætlun og jafnvel komið að framkvæmdum núna þegar í ljós kom að þau ættu að bíða lengur. Nefni ég Vestfjarðaveg 60, Dynjandisheiði og framkvæmdir í Berufirði.

Menn víða um land hafa lýst áhyggjum sínum. Nýverið mótmæltu Austfirðingar. Í Fréttablaðinu í dag er áskorun sem fyrirtæki og einstaklingar á Vestfjörðum birtu í Fréttablaðinu í dag þar sem þessu er mótmælt — með leyfi forseta, ég sýni þingheimi þetta blað. Það þarf vissulega fjármuni og ráðherranum er vorkunn að reyna að finna þá fjármuni. Menn hafa t.d. nefnt það að hækka skatta, selja eignir o.s.frv., en ég held að það sé ein leið enn til þess að afla fjár. Hún er að sjálfsögðu ekki alveg sársaukalaus, það er að hægja á greiðslu skulda ríkissjóðs og ná í einhverja fjármuni þar. Það að sjálfsögðu er ekki gallalaust því að þá munum við að sjálfsögðu sitja áfram með vaxtagreiðslur, sem eru vissulega dýrar, en þar er hægt að ná í fjármuni.

Ég tel líka mikilvægt að skoðað verði að hægja á eða fresta framkvæmdum Isavia á Keflavíkurflugvelli. Það mun væntanlega hægja á þeim mikla vexti sem er í komu ferðamanna til landsins. Það mun líka skapa svigrúm til annarra framkvæmda því að það er ekki hægt að vera í tug- og hundruð milljarða framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli og um leið fara á í aðrar framkvæmdir. Það mun einfaldlega þýða stóraukna þenslu.

Hæstv. ráðherra sagði á fundi umhverfis- og samgöngunefndar að fé yrði tryggt í þær framkvæmdir sem ég nefndi hér áðan, Vestfjarðaveg 60 og Dynjandisheiði. Ég veit að ráðherra er maður orða sinna þannig að ég kvíði þessu miklu minna en ég gerði áður.