146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

samgönguáætlun.

[11:24]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra kallaði samþykkt samgönguáætlunar síðasta haust nánast siðlausa. Það er rétt, þar birtist nefnilega ákveðið siðleysi, ekki vegna þess að þingmenn samþykktu einróma löngu tímabærar og lífsnauðsynlegar framkvæmdir, heldur hinu að Sjálfstæðisflokkurinn hljóp frá öllu eftir kosningar, lagði fram ásamt Framsóknarflokki fjárlög sem gerðu hana að engu, fjárlög sem í stórum dráttum voru klár fyrir kosningar og fyrir samþykkt samgönguáætlunar 12. október í fyrra.

Frú forseti. Það er ekki nánast siðlaust, það er siðlaust. Hæstv. fjármálaráðherra tók sjálfur þátt í leiknum, samsinnti kröfum FÍB um stóraukið fé til samgöngumála, en var svo eins og staður klár eftir kosningar þegar barist var um að efna loforð og sækja tekjur til þeirra.

Ég minni á að í fjárlagafrumvarpi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks áttu útgjöld til vegamála að vera enn lægri en raunin varð á við samþykkt fjárlaga. Í frumvarpinu vantaði 8 milljarða upp á að útgjöldin næðu meðaltali af útgjöldum til vegamála síðustu 40 árin. Háttsemi samgönguráðherra er svo sjálfstætt umtalsefni. Ekki nóg með að loforð séu svikin, heldur ákveður ráðherra sjálfur að forgangsraða því fé sem þó er til staðar, leitar ekki til þingsins heldur hagar sér eins og hann hafi þegið valdið frá guði.

Viðbrögð þjóðarinnar við svikunum létu auðvitað ekki á sér standa. Nú er ríkisstjórnin komin út í horn og leitar leiða úr klemmunni. Stjórnarliðar veifa svo vinstri hendinni til kjósenda heima í héraði og lofa meira fé í málaflokkinn, en með hægri hendinni munu þeir svo væntanlega samþykkja útgjaldareglu fjármálastefnu til fimm ára og þar mega útgjöld ríkisins ekki fara yfir 41,5% af landsframleiðslu. Það þýðir með öðrum orðum að við núverandi stöðu verður ekkert svigrúm í samgöngubætur sem lofað var. (Forseti hringir.) Ef þjóðarbúskapur dregst svo saman þá mun verða skorið niður.

Frú forseti. Þessi ríkisstjórn veldur ekki þessu verkefni.