146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

samgönguáætlun.

[11:27]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Það þarf aðgerðir strax. Bílveltur á Skógarstrandarvegi, Vatnsnesvegur svo holóttur að nálgast hættumörk, vegurinn út á Reykjaströnd ófær vegna aurs eða skriðufalla. Svona mætti áfram telja. Þannig hljómuðu fréttirnar dag eftir dag í haust. Um marga þessa sveita- og héraðsvegi er þó börnum ekið daglega í skóla. Í haustmyrkri og rigningu vaðast þessir malarvegir upp í aur og holur og verða stórhættulegir og nánast ófærir. Þessir vegir hafa drabbast niður vegna ónógs viðhalds og endurbóta. Þrátt fyrir góðæristal og bólginn ríkissjóð m.a. fyrir gjaldtöku á umferð fólks á þessum vegum er eins og stjórnvöld séu hrokkin úr sambandi við þjóðina. Sveita- eða héraðsvegir tengja saman fólk og byggðir innan héraða, jafnvel milli landshluta. Um þá er börnum ekið í skóla eða fólk sækir daglega vinnu og nauðsynjar.

Eftir ferðir mínar undanfarna mánuði — já, það þarf að keyra vegina til þess að skilja þörfina — er mér hugsað m.a. til vegarins norður í Árneshrepp, um Barðaströnd og í Örlygshöfn og Breiðuvík, um Skógarströnd, Vatnsnes, út á Reykjaströnd, Hegranesið, um uppsveitir Borgarfjarðar eða um Mýrar, inn til dala í Skagafirði og Húnavatnssýslum. Svona mætti áfram telja. Álagið á þessa vegi, lífæð byggðanna, kallar á tafarlausar aðgerðir. Ég legg einnig til að samhliða því að afhenda þjóðinni gjaldfrjáls Hvalfjarðargöngin til ævarandi eignar á næsta ári verði virðisaukaskatti sem veggjöldin hafa skilað til ríkissjóðs og eru líklega á bilinu 5–8 milljarðar varið í nýtt samgönguátak á þjóðveginum vestur og norður á land sem m.a. felist í breikkun vegarins. Það er þörf á stórátaki í vegamálum. Fjármunir og tekjustofnar eru fyrir hendi.

Hvað voru þeir þingmenn að hugsa sem hleyptu fjárlögunum í gegnum þingið með stóru gati í samþykktri samgönguáætlun? Það þarf aðgerðir strax.