146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

samgönguáætlun.

[11:29]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Samgönguáætlun er áætlun. Áætlun getur tekið breytingum ef aðstæður eru aðrar en gert var ráð fyrir þegar hún var lögð fram. Öllum er ljóst að mikilla úrbóta er þörf í samgöngukerfi landsins. Við erum að súpa seyðið af því að árum saman, á títtnefndum hrunárunum, áttu litlar sem engar vegbætur eða viðhald sér stað í samgöngukerfinu. Á þeim tíma hefði verið viturlegt að örva hagkerfið með uppbyggingu samgöngukerfisins í stað þess að svelta það. (LE: Það var gert.)

Sú samgönguáætlun sem nú er í gildi er sannarlega metnaðarfull og gaf fyrirheit vítt um land. Staðreyndin er hins vegar sú að í fjárlögum ársins 2017 er ekki lagastoð fyrir öllum þeim framkvæmdum sem fram komu í áætluninni. Þrátt fyrir það eru í þessum sömu fjárlögum mestu framlög til samgöngumála frá árinu 2008, mesta hækkun í 10 ár. Framlög til Vegagerðarinnar eru í heild 29 milljarðar, eða 29 þús. millj. kr. í fjárlögum ársins 2017. Þau voru 25 milljarðar fyrir árið 2016. Aukningin er því 4 milljarðar. Það er ekki niðurskurður, það er aukning á framlagi til vegamála.

Eftir stendur að væntingar til umbóta voru miklar eins og fyrr sagði. Það er ljóst að ekki verður unnt að svara þeim öllum. Er því nauðsynlegt að forgangsraða. Samgönguráðherra hefur óskað eftir því við fjármálaráðherra að leitað verði leiða til að setja aukið fjármagn í samgönguáætlun og það á eftir að koma í ljós hvort og hve mikið fjármagn kemur til viðbótar. Umræða undangenginna vikna sýnir hins vegar, svo að ekki verður um villst, (Forseti hringir.) að það er vilji landsmanna að farið verði í enduruppbyggingu vegakerfisins um allt land á myndarlegan hátt. Við skulum samt vera meðvituð um að það mun taka tíma og krefst mikilla fjármuna og þolinmæði.