146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

samgönguáætlun.

[11:33]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka frummælanda, hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé, kærlega fyrir þessa umræðu og hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra Jóni Gunnarssyni fyrir svör hans. Það var einkar athyglisvert að fylgjast með. Hér er spurt um hvað menn hafi verið að hugsa þegar fjárlögin voru samþykkt. Ég held að það hafi einfaldlega verið það að menn vildu tryggja að til væri eitthvert fjármagn til rekstrar ríkisins frekar en ekki neitt. En eitt af því sem einkenndi mjög umræðuhluta a.m.k. eins stjórnarflokksins, Viðreisnar, þegar hann samdi um ríkisstjórnarsamstarf var áherslan á að ekki ætti að hækka neina skatta, það mætti alls ekki hækka skatta. Það leið hins vegar ekki sérstaklega langur tími þar til ráðherrar, sem stóðu frammi fyrir stórum verkefnum, eins og hæstv. samgönguráðherra og raunar líka hæstv. sjávarútvegsráðherra, fóru að tala um hækkun á sköttum. Þeir kölluðu það hins vegar gjöld, töluðu um auðlindagjald, einnig var talað um vegatolla, annaðhvort til þess að framfylgja pólitískri stefnu eða til að borga fyrir mikil verkefni.

Ég vil gjarnan nota tækifærið hér og minna á að það eru, eins og hæstv. ráðherra þekkir mjög vel og hefur sjálfur tilgreint, stór og mikilvæg verkefni sem þarf að undirbúa og gera áætlanir um, eins og Sundabrautin, hvernig við munum hugsanlega styðja sveitarfélögin hér á höfuðborgarsvæðinu varðandi uppbyggingu almenningssamgangna, þ.e. borgarlínuna svokölluðu, og hin fjölmörgu mislægu gatnamót sem byggja á á höfuðborgarsvæðinu. Það tengist allt saman mjög stórum verkefnum sem ætlunin er að fara í. Það virðist vera vilji þessarar ríkisstjórnar að fara í byggingu nýs Landspítala við Hringbraut. Það þýðir að það mun auka enn frekar álagið á samgöngukerfið á (Forseti hringir.) höfuðborgarsvæðinu. Síðan þarf jafnt og þétt að huga að því hvort skynsamlegt sé að fara jafn hratt og ætlunin er í uppbygginguna á Keflavíkurflugvelli og hvernig við tryggjum sem best samgöngurnar á milli höfuðborgarsvæðisins og flugvallarins. Það eru stór verkefni sem ráðherrann þarf að huga að og vinna hratt.