146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

samgönguáætlun.

[11:38]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir það að taka þetta málefni upp sem brennur svo ákaft á öllum landsmönnum. Við erum ein þjóð, fámennt samfélag í stóru landi sem býr við ójafnan kost. Skilningsleysi stjórnvalda á þessu birtist með augljósum hætti í vinnu ríkisstjórnarinnar með samgönguáætlun þar sem vilji Alþingis og þjóðarinnar var að engu virtur. Hún var sérkennileg kynning samgönguráðherra fyrir skömmu.

Síðastliðið haust í aðdraganda kosninga og í kjölfar kosninganna sjálfra var um fátt meira rætt en brýna þörf fyrir innviðauppbyggingu á öllum sviðum. Samgöngumál voru þar ofarlega á baugi, land, loft, sjór, línur og ljós. Grunnþörfum íbúa á landsbyggðinni er nú algjörlega ýtt til hliðar, þeim þörfum að komast með sæmilega greiðum hætti á milli byggðarlaga. Þetta finnst landsmönnum kaldar kveðjur. Fjarlægðir verða ekki skrifaðar út úr bókinni, það er ekki á valdi nokkurs manns. Við getum hins vegar gert það mögulegt að stytta og greiða leiðir. Það vantar mikið upp á að það sé sett í forgang.

Við búum enn við mjóa hættulega malarvegi og einbreiðar brýr, samgönguleiðir sem jafnvel eru heftar á milli svæða meiri hluta ársins. Ég nefni norður- og suðursvæði Vestfjarða sem þó á að kallast sameiginlegt þjónustusvæði, t.d. á sviði heilbrigðisþjónustu. Núverandi ríkisstjórn flýr af hólmi, skellir skollaeyrum við ákalli frá byggðum og atvinnulífi hvarvetna um landið. Ríkisstjórnin ræður ekki við verkefnin og þá uppbyggingu sem þörf er á, þorir ekki í það átak sem blasir við að afla fjár til framkvæmda. Það skortir á skilning á högum landsmanna hringinn í kringum landið. Hlutskipti þessarar ríkisstjórnar er í besta falli að troða marvaðann.

Jafnaðarmenn voru með mótaðar tillögur í aðdraganda kosninga og áform um það hvernig markmiðum um innviðauppbyggingu yrði náð. Flokkur fjármálaráðherra heyktist því miður á að slást í för. Við sitjum uppi með ríkisstjórn sérhagsmuna og gróðapunga. (Forseti hringir.) Ég skora á ríkisstjórnina að setja í sig kjark, rífa upp hakann og skófluna og leitast (Forseti hringir.) við að sýna dug og koma sér til verka.