146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

samgönguáætlun.

[11:42]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það veganesti sem ég tek með mér frá þessari umræðu er fyrst og fremst það að við erum að stórum hluta sammála um mikilvægi málsins, að fara þurfi í átak í samgöngumálum. Það er mikilvægt að umræðan sé málefnaleg. Mér hefur aðeins þótt skorta á það hjá ákveðnum hv. þingmönnum. Hv. þm. Einar Brynjólfsson sagði að þegar önnur ríkisstjórn tók við völdum í byrjun ársins hafi komið annað hljóð í strokkinn. Það var ekki þessi ríkisstjórn sem gekk frá fjárlögum þessa árs, (Gripið fram í: Sami flokkur.) heldur var það þingið. Ríkisstjórnin tók við 11. janúar.

Siðlaus samgönguáætlun, sagði hv. þm. Logi Einarsson. Háttsemi ríkisstjórnar, eins og hv. ráðherra hafi þegið valdið frá guði? Nei, hann hefur vald sitt frá Alþingi. Svona málflutningur er ekki til þess fallinn að hjálpa í umræðunni, að segja að hér sé um svik og pretti að ræða. Hér er bara verið að vinna úr því sem er til umráða samkvæmt ákvörðun Alþingis um framlög til þessa málaflokks.

Hv. þm. Guðjón S. Brjánsson sagði að vilji Alþingis og þjóðar hefði ekki verið virtur af ráðherra málaflokksins. Ég frábið mér svona málflutning. Unnið er eftir samgönguáætlun sem þingið hefur samþykkt og ekkert vikið frá því í einu eða neinu. Að koma svo hér með einhver orð um að þetta sé ríkisstjórn gróðapunga og einkahagsmuna — það er ekki til þess fallið að hjálpa okkur og ekki til að auka á virðingu Alþingis, svo það sé gert að umtalsefni.

Það skín svolítið í gegn að menn horfa á málin með sínum nærsýnisgleraugum, hvaðan af landinu sem hv. þingmenn koma. Hv. þm. Bjarni Jónsson segir að taka ætti 5–6 milljarða og setja í vegi vestur og norður um land. Ja, ég er ekki alveg viss um að það sama sé sagt á Suðurlandi og Norðausturlandi.

Við verðum að reyna að vinna úr þessu saman. Ég geri mér auðvitað grein fyrir grunnþörfinni. (Forseti hringir.) Það er ekki rétt að ráðherrann sé ekki að reyna að hugsa leiðir í því hvernig hægt er að fjármagn stórt og mikilvægt átak í þessum málaflokki. Sú vinna er í gangi. Það mun taka tíma að ná utan um það og sjá hvaða kosti og galla slíkar leiðir hafa í för með sér, en þær snúa að sjálfsögðu að því að taka þennan málaflokk til gagngerrar endurskoðunar og fjármagna hann með nýrri hugsun og nýjum hætti. Það er okkur nauðsynlegt vegna þess að við vitum öll (Forseti hringir.) hversu mikil þörf er á fé í velferðarkerfið og heilbrigðiskerfi landsins. Það er þar sem menn voru að forgangsraða við síðustu fjárlög. Ég geri ráð fyrir því að það verði (Forseti hringir.) mjög ofarlega á óskalista þingmanna í framtíðinni.