146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

lax- og silungsveiði.

271. mál
[12:00]
Horfa

Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P):

Virðulegi forseti. Mér finnst þessi lagagrein ganga heldur langt, þ.e. að banna álaveiðar. Ég skil að takmarka verði álaveiðar, en þá á grundvelli einhverra rannsókna.

Í greinargerðinni gríp ég niður þar sem segir, með leyfi forseta:

„Enn fremur kemur þar fram að afar litlar upplýsingar séu til um álaveiðar við Ísland og að engin veiði hafi verið skráð.“

Það er svolítið skrýtið að ætla að banna veiðar sem við vitum ekki einu sinni hvort eiga sér stað.

Eins og gerð hefur verið grein fyrir er tilefni þessa frumvarps það að Fiskistofa óskaði eftir að ráðuneytið hlutaðist til um að álaveiðar yrðu bannaðar á Íslandi og við landið. Ég skil það. Fiskistofa hefur ekki lögsögu í vötnum bænda. Síðar í frumvarpinu segir:

„Frumvarpið hefur áhrif á bændur, veiðiréttareigendur og aðra sem hafa stundað álaveiðar. Megintilgangur frumvarpsins er að vernda álastofninn hér á landi gegn ofveiði …“, sem við vitum ekki einu sinni hvort er raunin.

Ég veit það ekki. Ætlum við að fara að stjórna fiskveiðum á Íslandi ef Írar eða Skotar eru búnir að veiða of mikið af ál. Eigum við ekki að rannsaka það hvort við veiðum ál almennt og ef það á að banna það, verðum við þá ekki að rannsaka vötnin og vita það að vandamálið sé til staðar?