146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

lax- og silungsveiði.

271. mál
[12:14]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem átt hefur sér stað, og hv. þm. Bjarna Jónssyni fyrir að hafa komið með ábendingar sínar, enda er sérfræðiþekking hans mikil.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á að þetta er heimildarákvæði. Af hverju erum við að setja inn ákvæði þarna, inn í lax- og silungsveiðileyfi? Af því að við verðum að ganga varlega um þau réttindi sem þarna eru, sem tryggð eru í stjórnarskránni í gegnum eignarréttinn og fleira. Þess vegna erum við að setja inn heimildarákvæði.

Þar fyrir utan vil ég benda á að ef fara á íþyngjandi leið, því að allt bann er íþyngjandi, þarf það að vera byggt á vísindalegum grunni, rannsóknum. Það verður gert. Það á alltaf að beita meðalhófsreglu við allar slíkar nálganir þegar menn eiga að takmarka frelsi fólks eða svigrúm. Þess vegna förum við þessa leið. En þetta er líka ábyrg leið að því leytinu til að við höfum fengið sterkar vísbendingar, bæði að utan en líka — og ég ætla bara að vona að ég hafi bara misskilið hv. þingmann þegar mér fannst hann vera að hnýta í Hafrannsóknastofnun, sem er okkar helsta rannsóknarstofnun, ekki bara á sviði sjávar heldur líka núna eftir sameiningu stofnunarinnar við Veiðimálastofnun eru þar okkar helstu sérfræðingar á sviði vatna og áa. Ég vona að ég hafi misskilið hv. þingmann og ef ég hef ekki gert það vil ég einfaldlega mótmæla því. Þetta er ein af okkar allra fremstu vísindastofnunum. Hvar sem maður kemur í dag er litið til okkar Íslendinga m.a. út af markvissum rannsóknum okkar á lífríki hafsins, ánna o.s.frv. Svo það sé sagt hér.

Ég tel mjög mikilvægt að þingnefndin fari vel yfir annars ágætar ábendingar frá hv. þingmanni Bjarna Jónssyni og hv. þm. Gunnari I. Guðmundssyni frá Pírötum. Þetta eru eðlilegar vangaveltur. Á að banna eða ekki? Þess vegna þarf að fara mjög varlega í það. Þingnefndin fer gaumgæfilega yfir það. Þetta eru sjónarmið okkar í ráðuneytinu, að við þurfum að ganga varlega um þau réttindi sem fólki eru tryggð m.a. í stjórnarskrá, og hins vegar varðandi málefni snúa að lífríki náttúrunnar. Þar viljum við fara varlega. Það er mjög skýr stefna þessarar ríkisstjórnar, enda er umhverfiskaflinn hjá þessari ríkisstjórn sá lengsti sem skrifaður hefur verið í stjórnarsáttmála. Það er ekki tilviljun.

Ég vil líka geta þess að það eru ábendingar að utan um stofnstærðarminnkun álsins, en líka það að Veiðimálastofnun sagði mjög skýrt í því bréfi sem ráðuneytinu barst á sínum tíma, í febrúar 2016, þar sem var gerð grein fyrir líffræði og lífsferli áls, að álastofninn væri í hættu og þyldi illa veiðar. Ráðgjöf Veiðimálastofnunar þá var að bann yrði sett á allar álaveiðar hér á landi.

Ég ítreka: Þetta er heimildarákvæði. Ráðherra tekur ekki ákvörðun nema ef skýrar vísbendingar eru um að álastofninn sé í hættu svo þær veiðar verði ekki takmarkaðar nema vísindaleg ráðgjöf kveði þar skýrt á um.

Að öðru leyti vil ég undirstrika að málið fer til hv. atvinnuveganefndar til yfirlestrar, umsagnar og umfjöllunar. Þar munu þessi sjónarmið eflaust koma fram og verður farið yfir þær umfjallanir. Ég hlakka til að sjá hver umfjöllunin og meðferðin verður hjá nefndinni en eftir stendur að ég mæli eindregið með því að þetta heimildarákvæði verði samþykkt til þess að við getum brugðist við ef vísindin segja okkur að það sé ótvírætt að álastofninn sé í hættu. Ef vísindaráðgjöfin kemur núna og segir með nýjum rannsóknum að álastofninn sé í hættu og við samþykkjum ekki frumvarpið þá getum við ekki brugðist við, Íslendingar. Mér finnst einfaldlega ekki ábyrgt að hafa ekki slíkt ákvæði í lögunum.

Ég undirstrika: Meðalhófsreglan gildir alltaf í íslenskri stjórnsýslu.