146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

lax- og silungsveiði.

271. mál
[12:19]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka það skýrt fram að ég var ekki að hnýta í neinn eða hnýta í Hafrannsóknastofnun eða getu hennar á mörgum sviðum. Þar eru okkar bestu sérfræðingar á ansi mörgum sviðum og það er mikilvægt að nýta sér ráðgjöf þeirra. En síðan geta komið göt í þá þekkingu. Ég ítreka að þegar svo er á ráðuneytið ekki að vera of viðkvæmt fyrir því að leita sér þekkingar út fyrir stofnanir ráðuneytisins, ef hana er betri að finna annars staðar, jafnvel í stofnunum sem heyra undir önnur ráðuneyti. Maður má ekki vera svo hörundsár gagnvart því.

Ég get alveg verið sammála því að það sé mikilvægt að hafa heimildarákvæðið sem slíkt eins og þarna er talað um. En það sem ég beindi sjónum að var rökstuðningurinn. Það er nánast búið að gefa sér fyrir fram að banna eigi veiðarnar. Og sú ákvörðun er á heldur þunnum ís. Vitnað í 20 ára gamla skýrslu og aðra sem er að verða ansi gömul. Það er allt og sumt sem vísað er til. Síðan er vísað í ákveðnar fullyrðingar. Greinargerð um lífsferla ála, jafnvel eins og þær eru í kennslubókunum, svarar því ekki hvernig við eigum að tækla akkúrat þessa hluti, sérstaklega ekki varðandi sérstöðu ála á Íslandi og hvernig lífsferlið er að sumu leyti allt öðruvísi hér en annars staðar.

Því vil ég aftur kalla eftir því að hæstv. ráðherra lýsi því að hún sé tilbúin og muni leita sér þekkingar víðar áður en farið verður að beita slíku ákvæði eins og því að banna veiðar. Þessi rök standast ekki. Það þarf að rökstyðja þetta betur (Forseti hringir.) ef svo á að vera.