146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

umgengni um nytjastofna sjávar o.fl.

272. mál
[12:43]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir það sem fram kom í andsvarinu með að hún sjái fyrir sér að rannsóknarstofnanir á landsbyggðinni og m.a. við Breiðafjörðinn fái hlutverk við vöktun og rannsóknir. Það er mjög mikilvægt að nýta sér bæði staðsetninguna og þekkinguna sem þar er til og byggja hana enn frekar upp. Ég fagna þeim orðum og legg mikla áherslu á að það verði gert að sjálfsögðu síðan í stærra samhengi og samstarfi við fleiri stofnanir.

Einnig voru nefndar stofnanir víða, inni á Ísafirði þar sem sérhæfð þekking er til varðandi haf- og strandsvæði. Ég fagna þeim orðum og vil bara enn og aftur minna á mikilvægi þess að þarna sé gengið um með sjálfbærum hætti og það þurfi meiri rannsóknir, það liggur ekkert allt fyrir núna í vor. Það verður að halda áfram. Svo verður líka að vakta áhrif aukinnar nýtingar ef af verður til þess að geta tekið réttar ákvarðanir á réttum tíma.

Ég vil koma því að ég tel að frumvarpið eigi ekki síður heima hjá umhverfis- og samgöngunefnd vegna þess að þarna eru einnig mikilvæg umhverfismál undir, þetta er ekki bara atvinnumál, þetta er líka gríðarlega mikilvægt umhverfismál. Ég legg það til að umhverfis- og samgöngunefnd fái einnig að fjalla um málið.

Það eru spennandi tímar fram undan varðandi nýtinguna og að þarna séu ýmsar fleiri hugmyndir að koma upp og fólk sé að þróa áfram nýja framleiðslu, en að sama skapi þurfum við að vanda okkur við alla umgjörðina.